Körfubolti

Mætti á æfingu daginn eftir alvarlegt bílslys í Eyjafirði: „Ótrúlegt að hann skyldi sleppa lifandi“

Sindri Sverrisson skrifar
Eric Fongue slapp vel á mánudaginn og getur spilað með Þór í kvöld. Hér er hann á liðsmynd í treyju sinni númer 12.
Eric Fongue slapp vel á mánudaginn og getur spilað með Þór í kvöld. Hér er hann á liðsmynd í treyju sinni númer 12. Mynd/Palli Jóh

Leikmaður körfuknattleiksliðs Þórs á Akureyri getur prísað sig sælan að hafa sloppið óskaddaður eftir alvarlegt bílslys á mánudaginn.

Svisslendingurinn Eric Fongue verður með Þór í kvöld þegar liðið mætir Keflavík í Subway-deildinni, þrátt fyrir að hafa endað á spítala eftir alvarlegt bílslys. 

Fongue var að nálgast Akureyri, nánar tiltekið á Moldhaugnahálsi, þegar bifreið hans rann yfir á öfugan vegarhelming og framan á bifreið sem kom úr gagnstæðri átt.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Norðurlandi eystra slösuðust ökumaður og farþegi hinnar bifreiðarinnar töluvert en nánari upplýsingar fengust ekki. Þeir voru líkt og Fongue fluttir á sjúkrahúsið á Akureyri og loka þurfti fyrir umferð á hringveginum í um tvær klukkustundir. 

Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs, segir mikla mildi að Fongue skyldi ekki slasast lífshættulega. „Bíllinn er í tætlum. Það er ótrúlegt að hann skyldi sleppa lifandi,“ sagði Bjarki við Vísi og bætti við Fongue hefði ótrúlegt en satt verið mættur á æfingu strax á þriðjudag.

Annar Svisslendingur kominn en meiddist

Erlendir leikmenn Þórs, og þar með félagið sjálft, hafa ekki haft heppnina með sér það sem af er leiktíð. Írinn Jordan Blount og Bandaríkjamaðurinn Jonathan Lawton eru báðir farnir heim vegna meiðsla.

Jeremy Landendbergue, landi Fongue frá Sviss, er nýkominn til landsins en meiddist á æfingu og er óvíst að hann geti spilað gegn Keflavík í kvöld.

Bandaríkjamaðurinn Reggie Keely á svo eftir að fá leikheimild en hann kemur til landsins á morgun.

Þór er eina stigalausa liðið í Subway-deildinni, eftir fimm umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×