Fótbolti

Var ekki glaður að leik loknum og segir að Ís­land stefni á að gera betur í næstu undan­keppni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson hefur fulla trú á að íslenska liðið geti gert betur á næstu mánuðum og árum.
Arnar Þór Viðarsson hefur fulla trú á að íslenska liðið geti gert betur á næstu mánuðum og árum. Stöð 2

Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari ræddi við blaðamenn að loknu 3-1 tapi Íslands í Skopje í Norður-Makedóníu. Hann var ósáttur með tapið og sagði Ísland hafa ætlað sér að berjast um annað sætið.

„Ég vil byrja á að óska ykkur til hamingju með annað sætið. Tilfinningar mínar eru alltaf þær sömu eftir tapleiki, ég er ekki glaður og það mun aldrei breytast,“ sagði Arnar Þór í upphafi aðspurður hvernig sér liði.

„Fyrri hálfleikurinn var erfiður fyrir okkur, við fengum tvö til þrjú færi á okkur en ég taldi okkur vera loka þeim svæðum sem við vildum ágætlega. Við áttum þó erfitt með að halda í boltann. Síðari hálfleikur var mun betri og þegar 2-1 markið kom taldi ég leikinn vera hallast okkur í vil.“

„Við skoruðum gott mark og ef við hefðum haldið lengur út í stöðunni 1-1 hefði andstæðingurinn orðið stressaður. Eftir markið var staðan hins vegar erfið, sérstaklega eftir að við fengum rautt spjald,“ bætti hann við.

Landsliðsþjálfarinn hristi svo bara höfuðið er hann var spurður hvort hann myndi fara til Rúmeníu að fá sér bjór.

Varðandi riðilinn í heild

„Við höfðum miklar væntingar. Við vildum keppa um annað sætið. Ég held samt að eftir allt sem hefur gengið á árið 2021 á Íslandi þá verðum við að viðurkenna að Norður-Makedónía var næstbesta lið riðilsins.“

„Maður sér að liðið var saman í 5-6 vikur vegna Evrópumótsins í sumar, það vinnur vel saman og er með góða leikmenn. Þeir hafa tekið sömu skref og við þurfum að taka í framtíðinni til að komast á þann stað sem Norður-Makedónía er á. Við munum reyna gera betur í næstu undankeppni.“

Um gulu spjöldin sem Ísak Bergmann fékk

Ísak Bergmann í leiknum gegn Rúmeníu.EPA-EFE/Robert Ghement

„Við skrifum það í reynslubankann að Ísak Bergmann (Jóhannesson) fái tvö gul spjöld og þar af leiðandi rautt. Við sögðum honum inn í klefa að hann á fullan rétt á að gera mistök eins og allir aðrir. Það eru þessi mistök sem munu gera þessa stráka að enn betri leikmönnum á næstu mánuðum og árum.“

„Svona hlutir gerast í leikjum. Það er erfitt að útskýra fyrir fólki sem var ekki á vellinum en spennan og stemmningin á vellinum var að sjálfsögðu mikil. Þeir voru að spila upp á annað sætið og sæti í umspili. Það eru svona leikir sem strákarnir læra mest á og fá mesta reynsluna úr.“

„Ég ætla ekki að tjá mig um þessi tvö spjöld og hvort þau hafi verið gul eða ekki. Það sem skiptir mestu máli er að strákarnir þora að gera mistök og læra af þeim.“

Um fyrsta markið

„Það er ómögulegt fyrir Elías Rafn (Ólafsson) að verja fyrsta markið. Þeir fá tvö færi í fyrri hálfleik og mark dæmt af vegna rangstöðu. Færin tvö sem þeir fá voru nákvæmlega þeir hlutir sem við vorum búnir að tala um og æfa fyrir leikinn.“

„Við náum ekki að koma í veg fyrir „overload“ á vinstri vængnum nægilega vel, það er hlaupið á bakvið Stefán Teit (Þórðarson) og svo þrumar hann (Ezgjan Alioski) boltanum úr mjög þröngu færi í stöngina og inn. Það hátt að það er nánast ómögulegt fyrir markmann að verja þetta,“ sagði Arnar Þór Viðarsson að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×