Körfubolti

Nautin ráku hornin í Lakers

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lonzo Ball og DeMar DeRozan léku báðir stórvel gegn Los Angeles Lakers.
Lonzo Ball og DeMar DeRozan léku báðir stórvel gegn Los Angeles Lakers. getty/Katelyn Mulcahy

Chicago Bulls vann öruggan sigur á Los Angeles Lakers, 103-121, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Þetta var annar sigur Chicago í Staples Center í röð en á sunnudaginn unnu Nautin Los Angeles Clippers á sama stað. Þetta var jafnframt fyrsti sigur Chicago á Lakers í fimm ár.

DeMar DeRozan skoraði 38 stig fyrir Chicago sem er í 2. sæti Austurdeildarinnar. Lonzo Ball skoraði 27 stig gegn sínu gamla liði og Zach LaVine var með 26 stig.

Talen Horton-Tucker skoraði 28 stig fyrir Lakers og Russell Westbrook 25. LeBron James er enn frá vegna meiðsla.

Dallas Mavericks vann endurkomusigur á Denver Nuggets, 111-101, á heimavelli. Dallas stöðvaði þar með fimm leikja sigurgöngu Denver.

Kristaps Porzingis minnti á sig með 29 stigum og ellefu fráköstum hjá Dallas. Luka Doncic var með 23 stig og ellefu stoðsendingar. Nikola Jokic skoraði 35 stig og tók sextán fráköst í liði Denver.

Sigurganga Washington Wizards hélt áfram þegar liðið fékk New Orleans Pelicans í heimsókn. Lokatölur 105-100, Washington í vil. Töframennirnir hafa unnið fimm leiki í röð og eru á toppnum í Austurdeildinni. Spencer Dinwiddie var stigahæstur hjá Washington með 27 stig.

Úrslitin í nótt

  • LA Lakers 103-121 Chicago
  • Washington 105-100 New Orleans
  • Dallas 111-101 Denver
  • Cleveland 92-98 Boston
  • Detroit 107-129 Sacramento
  • Atlanta 129-111 Orlando
  • NY Knicks 92-84 Indiana
  • Memphis 136-102 Houston
  • Minnesota 96-99 Phoenix
  • Oklahoma 90-103 Miami
  • Portland 118-113 Toronto

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×