Á Peningamálafundi Viðskiptaráðs í morgun, sem bar yfirskriftina Er vinnumarkaðurinn týndi hlekkurinn?, sagði seðlabankastjóri Samtök atvinnulífsins hafa samið af sér þegar samið var um hagvaxtarauka við gerð Lífskjarasamningsins, líkt og Innherjinn greindi frá í morgun.
Hagvaxtaraukanum var ætlað að tryggja launafólki hlutdeild í ávinningnum þegar landsframleiðsla á hvern íbúa eykst.
Tekur framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs undir þessi orð seðlabankastjóra?
Svanhildur segir að það sé auðvelt að vera vitur eftir á. „En ég held að það hafi einfaldlega enginn séð fyrir sér þennan feril hagkerfisins þegar samningarnir voru gerðir. Að á samningstímanum yrði svona gríðarlegur samdráttur og í kjölfarið kæmi þetta hagvaxtarskot,” segir hún.
„Þessi hagvaxtartenging launa er í raun góð hugmynd og á margan hátt skynsamlegri en samningar um krónur eða prósentuhækkanir á ákveðnum tíma óháð gengi atvinnu- og efnhagsmála. En þessi tenging þarf þá að miðast við raunverulega aukningu landsframleiðslu yfir allan samningstímann, en ekki milli ára.
Hefði verið gott að skrifa það út í samningunum? Jú, vissulega, en að sama skapi má líka spyrja hvort forsendubrestur eins og þessi, allt annar upphafspunktur hagvaxtar, ætti ekki að leiða til þess að viðsemjendur SA sýndu meiri skilning á því ábyrgðarhlutverki sem vinnumarkaðurinn á að gegna sem ein stoð hagstjórnarinnar.
Svanhildur ítrekar mikilvægi þess að fundir á borð við þann í morgun séu haldnir. „Fulltrúar vinnumarkaðarins, hins opinbera og Seðlabankans hittast reglulega á fundum í Þjóðhagsráði, en þeir fara auðvitað fram fyrir luktum dyrum. Ég held að það sé gagnlegt að leiða saman fólk til að ræða málin undir talsvert óformlegri merkjum, eins og við gerum til dæmis á Peningamálafundi Viðskiptaráðs, og gefa öðrum færi á að fylgjast með og draga sínar ályktanir af þeirri umræðu. Seðlabankastjóri talaði líka mjög skýrt og það gefur ákveðin fyrirheit um það hvernig hann ætlar sér að stýra málum á næstunni.”
Skautun í umræðunni sé stórskaðleg
Viðskiptaráð ætli sér áfram að reyna að auka skilning á mikilvægi þess að allir þættir hagkerfisins vinni saman að því að ná markmiðum um betri lífskjör og efnahagslegan stöðugleika.
„Það veitir fólki og fyrirtækjum tækifæri til að skapa eitthvað nýtt og spennandi og búa til meiri verðmæti.
Við viljum líka hlusta og gera það sem við getum til að leiða fólk saman, því þessi skautun í umræðunni, sem verið hefur ríkjandi, er stórskaðleg.
Hún segir niðurstöðu fundarins vera í samræmi við yfirskriftina. „Að vinnumarkaðurinn sé að ýmsu leyti týndi hlekkurinn í hagstjórninni. Það sé í besta falli ólíklegt að ítrekaðar 6 prósent launahækkanir milli ára geti skilað okkur skaplegri verðbólgu til langs tíma og við þær aðstæður sé erfitt að halda tökum á peningastefnunni. Það þurfi því að nálgast kjarasamninga með raunverulegan árangur og raunlaunahækkanir í huga, en ekki einblína á nafnlaun.”