Fótbolti

Liðsfélagarnir héldu að hann hefði sofið yfir sig en sáu hann aldrei aftur á lífi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn japanska fótboltaliðsins Shonan Bellmare hópa sig saman fyrir leik liðsins í október.
Leikmenn japanska fótboltaliðsins Shonan Bellmare hópa sig saman fyrir leik liðsins í október. Getty/Etsuo Hara

Japanska fótboltafélagið Shonan Bellmare hefur staðfest fréttir af því að leikmaður liðsins hafi fundist látinn heima hjá sér.

Leikmaðurinn heitir Riuler de Oliveira og var 23 ára brasilískur miðjumaður.

Norska blaðið Dagbladet ræddi við norska knattspyrnumanninn Tarik Elyounoussi sem var liðsfélagi Oliveira hjá japanska félaginu.

Elyounoussi sagði frá því að leikmenn liðsins hafi fengið fréttirnar á æfingu á þriðjudaginn.

Riuler de Oliveira mætti ekki á æfingu og liðsfélagarnir héldu að hann hefði sofið yfir sig en annað kom á daginn. Hann svaraði ekki símanum og enginn náði í hann. Hið sanna kom í ljós þegar farið var heim til hans þar sem Oliveira fannst látinn.

Fjölmiðlar í Japan segja að hann hafi fengið hjartáfall.

„Þeir fundu hann í rúminu. Þetta er svo ótrúlega sorglegt. Hann átti líka fimm ára barn heima í Brasilíu,“ sagði Tarik Elyounoussi við Dagbladet.

„Við fengum að vita þetta á æfingu og það stóðu bara allir og grétu,“ sagði Elyounoussi.

Riuler de Oliveira kom til Shonan Bellmare liðsins í október 2020. Þá hafði Tarik Elyounoussi verið þar í tíu mánuði. Elyounoussi segir að þeir hafi verið nánir og að Oliveira hafi verið við hlið hans í búningsklefanum.

„Ég skil þetta ekki ennþá. Fötin hans hanga þarna ennþá og allt dótið hans. Maður trúir þessu bara ekki. Hann var svo ungur. Svona hlutir eiga ekki að geta gerst að svona ungur og heilbrigður maður deyi. Það á ekki að gerast,“ sagði Elyounoussi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×