Körfubolti

Martin ekki með gegn Rússum

Sindri Sverrisson skrifar
Martin Hermannsson missir af leiknum við Rússa í dag.
Martin Hermannsson missir af leiknum við Rússa í dag. FIBA

Martin Hermannsson verður ekki með íslenska landsliðinu í körfubolta í kvöld þegar liðið spilar við Rússland í undankeppni HM.

Samkvæmt tilkynningu frá KKÍ sem barst nú skömmu fyrir leik þá glímir Martin við meiðsli í kálfa eftir sigurinn gegn Hollandi á föstudaginn.

„Að ráðleggingu sjúkraþjálfara íslenska liðsins og í samráði við Martin sjálfan og þjálfarateymi Íslands hefur verið ákveðið að Martin hvíli í leiknum í dag,“ segir í tilkynningunni.

Það verða því 11 leikmenn Íslands sem spila leikinn við Rússland sem hefst klukkan 17 að íslenskum tíma. 

Leikurinn fer fram í Pétursborg. Hann átti upphaflega að fara fram á Íslandi en þjóðirnar skiptu á heimaleikjum þar sem að engin íþróttahöll á Íslandi stenst í dag kröfur FIBA vegna keppninnar. Unnið er að viðgerð á Laugardalshöll.

Martin var maður leiksins í sigri Íslands gegn Hollandi en þar skoraði hann 27 stig, tók fjögur fráköst og gaf þrjár stoðsendingar auk þess að stela boltanum einu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×