Einkunnagjöf MSCI ESG Fund Ratings miðar að því að mæla styrkleika verðbréfasjóða og kauphallarsjóða gagnvart langtímaáhættum og tækifærum sem stafa af umhverfis-, félags- og stjórnarháttum.
Í tilkynningunni segir að sjóðurinn sé þar með kominn í flokk með fremstu sjóðum í heiminum með tilliti UFS-þátta, þ.e. umhverfismála, félagslegra þátta og góðra stjórnarhátta. Í greiningu MSCI kemur fram að „Stefnir – Scandinavian Fund ESG“ mælist ofar en 94 prósent sjóða sem MSCI veitir einkunn, en þeir eru um 34 þúsund talsins á heimsvísu.
Skammt er síðan áherslum „Stefnis - Scandinavian Fund ESG“ var breytt en síðastliðið vor var ákveðið að stýra sjóðnum samkvæmt aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga. Sjóðurinn fjárfestir í „leiðandi fyrirtækjum í Skandinavíu sem standa öðrum framar í sjálfbærri verðmætasköpun“, eins og það er orðað í tilkynningunni.
Í tilkynningunni kemur einnig fram að Stefnir finnir fyrir mjög auknum áhuga, bæði fagfjárfesta og smærri eigenda í sjóðum, á ábyrgum og sjálfbærum fjárfestingarkostum. Haft er eftir Per Matts Henje, sjóðstjóra, að Stefnir vilji bjóða fjárfestum upp á ábyrga og fjölbreytta fjárfestingakosti í sem flestum eignaflokkum.
„Ítarleg upplýsingagjöf er lykilatriði til að sýna fram á þá samfélagslegu ábyrgð sem Stefnir vilja stuðla að. Með því að taka tillit til umhverfismála, félagslegra þátta og góðra stjórnarhátta við fjárfestingar teljum við okkur geta haft jákvæð áhrif á samfélag okkar, sem er bæði eigendum í sjóðum Stefnis og öðrum haghöfum til góðs,“ segir Per.
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.