Þetta kemur fram í svörum Landsvirkjunar við fyrirspurn Vísis. Bilunin er sögð ein af ástæðum þess að Landsvirkjun hefur ákveðið að skerða afhendingu raforku til fiskimjölsverksmiðja og annarra stórnotenda með skerðanlega skammtímasamninga, eins og gagnavera og álvera.
Í svörum fyrirtækisins segir að unnið sé að bilanagreiningu og rifum þannig að hægt sé að hefja eiginlega viðgerðarvinnu. Áætlað hafi verið að hefja vinnu við útskipti á vatnshjóli sömu vélar 16. janúar næstkomandi.
„Ljóst er að [vélin] er ekki rekstrarhæf fram að þeim tíma. Vinna við útskipti á vatnshjóli mun standa fram í byrjun maí. Rétt er að taka fram að þessi vél er ein af 7 vélum í Búrfelli en þær eru sjaldast allar keyrðar í einu. Hinar vélarnar verða að líkindum keyrðar meira á meðan þessi er úti, sem eykur áhættu í rekstri raforkukerfisins,“ segir í svörum Landsvirkjunar.