Körfubolti

Curry sló metið og fagnaði með þeim sem átti það

Sindri Sverrisson skrifar
Stephen Curry faðmar pabba sinn, Dell Curry, eftir að hafa slegið metið yfir flestar þriggja stiga körfur í NBA-deildinni.
Stephen Curry faðmar pabba sinn, Dell Curry, eftir að hafa slegið metið yfir flestar þriggja stiga körfur í NBA-deildinni. AP/Mary Altaffer

Stephen Curry getur nú státað sig af því að hafa skorað fleiri þriggja stiga körfur en nokkur leikmaður í sögu NBA-deildarinnar. Hann sló met Ray Allen í nótt, fyrir framan fráfarandi methafa.

Curry var ekkert að tvínóna við hlutina, í 105-96 sigri Golden State Warriors á New York Knicks í Madison Square Garden í nótt. Hann hóf að setja niður þrista í fyrsta leikhluta og sló metið þegar sjö og hálf mínúta var eftir af leikhlutanum.

Eftir leikinn í gær hefur Curry skorað 2.977 þriggja stiga körfur á ferlinum, fjórum fleiri en Ray Allen, þrátt fyrir að hafa aðeins spilað 789 leiki samanborið við 1.300 leiki Allens. Reggie Miller er í 3. sæti á listanum með 2.560 þrista en þeir Allen og Miller voru báðir á meðal áhorfenda í nótt.

Gert var hlé á leiknum á meðan að áfanganum var fagnað og Curry fékk tækifæri til að faðma foreldra sína, liðsfélaga og Allen, sem átt hafði metið í áratug.

„Mér fannst þetta fullkomið kvöld,“ sagði Steve Kerr, þjálfari Golden State, sem tók leikhlé eftir að metið féll svo að hægt væri að fagna. „Þetta undirstrikar hver hann er og viðbrögð hans við þessu voru fullkomin,“ sagði Kerr.

Curry hefur sex sinnum á ferlinum átt leiktíð þar sem að hann setur niður flesta þrista allra í deildinni. Hann hefur tvisvar verið útnefndur besti leikmaður deildarinnar og þrisvar fagnað NBA-meistaratitlinum.

Curry endaði með 22 stig í nótt og var stigahæstur í sínu liði. Golden State er áfram með besta árangurinn það sem af er leiktíð í NBA-deildinni en liðið hefur nú unnið 23 leiki og tapað aðeins 5.

Úrslitin í nótt:

  • New York 96-105 Golden State
  • Brooklyn 131-129 (e. framl.) Toronto
  • Portland 107-111 (e. framl.) Phoenix

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×