Eins og flestir vita þá sleit Sara krossband í mars í fyrra og þurfti að fara í aðgerð í apríl. Hún keppti á sínu fyrsta móti átta mánuðum eftir aðgerð. Það hefðu kannski ekki margir ráðlagt henni að snúa aftur svona snemma en Sara var staðráðin í að sýna sig og sanna.
Það var náttúrulega allur CrossFit heimurinn áhugasamur um hvernig gengi hjá Söru í endurkomunni og hún stimplaði sig vel inn þótt hún hafi ekki verið nálægt verðlaunapallinum.
CrossFit samtökin sögðu sérstaklega frá einu afreki Söru á þessu móti um síðustu helgi. Það var einmitt æfingin sem hún var að gera þegar hún sleit krossbandið í mars.
Sara mætti óhrædd í þá æfingu og setti nýtt persónulegt met í jafnhendingunni (clean and jerk) með því að lyfta 107,5 kílóum.
Þetta er það mesta sem hún hefur lyft í jafnhendinguna síðan hún fór að lyfta aftur eftir aðgerð.
Lyftan skilaði henni fjórða sætinu í greininni.
Það var ekki bara þyngdin sem Sara var að sigrast á heldur einnig andlegi þátturinn að hafa slitið krossbandið í æfingunni í fyrra. Það var því full ástæða til að brosa út að eyrum þegar hún kláraði lyftuna sína með glans.
„Velkomin til baka Sara,“ sagði í færslu CrossFit samtakanna sem má sjá hér fyrir ofan.