Körfubolti

Söguleg frammistaða Jokic gegn Clippers

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Los Angeles Clippers beittu ýmsum brögðum til að stöðva Nikola Jokic.
Leikmenn Los Angeles Clippers beittu ýmsum brögðum til að stöðva Nikola Jokic. getty/John McCoy

Nikola Jokic skoraði 26 stig, tók 22 fráköst og gaf átta stoðsendingar þegar Denver Nuggets sigraði Los Angeles Clippers, 100-103, í NBA-deildinni í nótt.

Jokic varð þar með fyrsti leikmaðurinn síðan Charles Barkley 1988 til að vera með 25 stig eða meira, 22 fráköst eða meira og fimm stoðsendingar eða meira í tveimur leikjum í röð.

Denver kastaði frá sér sautján stiga forskoti í leiknum en náði samt að landa sigri. Denver er í 6. sæti Vesturdeildarinnar, einu sæti fyrir neðan Clippers sem var án Pauls George sem er meiddur.

Chicago Bulls vann sinn þriðja leik í röð þegar Indiana Pacers kom í heimsókn. Lokatölur 113-105, Chicago í vil sem er í 2. sæti Austurdeildarinnar.

Zach LaVine skoraði 32 stig fyrir Chicago og DeMar DeRozan 24. Nikola Vucevic skoraði sextán stig og tók fimmtán fráköst. Caris LaVert skoraði 27 stig fyrir Indiana sem er í þrettánda og þriðja neðsta sæti Austurdeildarinnar.

Joel Embiid fór mikinn þegar Philadelphia 76ers bar sigurorð af Washington Wizards, 96-117. Kamerúnski miðherjinn skoraði 36 stig og tók þrettán fráköst. Tobias Harris bætti 23 stigum við fyrir Philadelphia sem er í 6. sæti Austurdeildarinnar.

Spencer Dinwiddie skoraði sautján stig fyrir Washington sem hefur gefið eftir að undanförnu eftir góða byrjun á tímabilinu.

Úrslitin í nótt

  • LA Clippers 100-103 Denver
  • Chicago 113-105 Indiana
  • Washington 96-117 Philadelphia
  • Miami 93-83 Orlando
  • Cleveland 144-99 Toronto
  • Sacramento 102-127 Memphis
  • Oklahoma 117-112 New Orleans
  • San Antonio 144-109 Detroit

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×