Handbolti

Daníel kallaður inn fyrir Svein

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson hefur hóað í Daníel Þór Ingason.
Guðmundur Guðmundsson hefur hóað í Daníel Þór Ingason. vísir/Andri Marinó

Daníel Þór Ingason hefur verið kallaður inn í íslenska landsliðshópinn vegna meiðsla Sveins Jóhannssonar.

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari staðfesti þetta í samtali við íþróttadeild í dag. Sveinn meiddist á hné á æfingu landsliðsins í gær og eftir myndatöku í dag kom í ljós að hann getur ekki þátt á EM.

Í stað Sveins hefur Guðmundur kallað á Daníel sem leikur með Balingen-Weilstatten í Þýskalandi. Daníel hefur leikið 34 landsleiki og lék meðal annars með landsliðinu á HM í Þýskalandi og Danmörku 2019.

Daníel er á Íslandi og bíður eftir grænu ljósi til að fá að koma inn í „búbblu“ íslenska liðsins sem heldur til á Grand hóteli milli æfinga.

Ísland átti að mæta Litáen í tveimur vináttulandsleikjum á Ásvöllum 7. og 9. janúar en þeir hafa verið blásnir af eftir að Litáar hættu við að koma hingað til lands.

Íslenska liðið æfir hér á landi áður en það heldur til Búdapest í Ungverjalandi á þriðjudaginn. Fyrsti leikur Íslands á EM er gegn Portúgal föstudaginn 14. janúar. Íslendingar mæta svo Hollendingum 16. janúar og Ungverjum 18. janúar.

Tuttugu leikmenn eru íslenska EM-hópnum en sextán mega vera á skýrslu í hverjum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×