Fótbolti

Smalling lætur loks bólusetja sig svo hann fái að spila

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Chris Smalling þótti skárra að láta bólusetja sig en að fá ekki að spila með Roma.
Chris Smalling þótti skárra að láta bólusetja sig en að fá ekki að spila með Roma. getty/Fabio Rossi

Chris Smalling, leikmaður Roma, hefur loksins samþykkt að láta bólusetja sig fyrir kórónuveirunni.

Undanfarna daga hafa borist fréttir frá Ítalíu þess efnis að Smalling væri eini óbólusetti leikmaðurinn í herbúðum Roma og José Mourinho, knattspyrnustjóri liðsins, legði hart að honum að láta bólusetja sig.

Frá og með 10. janúar þurfa allir sem ætla að stunda íþróttir utandyra á Ítalíu að vera bólusettir. Og Smalling hefur ku loks hafa látið segjast til að geta áfram að spila fótbolta á Ítalíu.

Eiginkona Smallings, Sam, hefur verið dugleg að setja inn færslur á samfélagsmiðla þar sem hún efast um ágæti bólusetninga og deilt efni frá efasemdarfólki um bólusetningar. Núna þarf hún samt að gera sér að góðu að vera með bólusettan mann heima hjá sér.

Smalling, sem er 32 ára, hefur verið í herbúðum Roma frá 2019. Hann kom fyrst á láni frá Manchester United en Roma keypti hann svo í október 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×