Innlent

Mikil bjartsýni fyrir ferðasumrinu 2022

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Í Mýrdalshreppi eru margar af þekktustu náttúruperlum landsins. Þá er Vík vinsæll staður hjá ferðamönnum.
Í Mýrdalshreppi eru margar af þekktustu náttúruperlum landsins. Þá er Vík vinsæll staður hjá ferðamönnum. Soauth.is

Mikill hugur er í þeim sem stunda ferðaþjónustu í Mýrdalshreppi fyrir sumrinu enda verið að skipuleggja sumarið á fullum krafti með fjölbreyttri dagskrá. Oddviti sveitarfélagsins spáir góðu sumri í ferðaþjónustu.

Í Mýrdalshreppi snýst meira og minna allt um ferðaþjónustu en sökum Covid hefur umfangið verið minna eins og gefur að skilja, en samt alltaf töluvert að gera. Nú er mikill hugur í Mýrdælingum fyrir sumrinu 2022 því þeir reikna með góði sumri í ferðaþjónustu á svæðinu.

Einar Freyr Elínarson er oddviti Mýrdalshrepps.

„Mér sýnist á öllu að sumarið verði nokkuð gott og haustið síðasta var líka bara nokkuð gott, þannig að ég held að við séum bara nokkuð bjartsýn, mér finnst það. Mér finnst margir vera að huga að uppbyggingu í ferðaþjónustunni líka, þannig að ég trúi því allavega að við munum rísa hratt upp úr þessu,“ segir Einar.

Einar Freyr Elínarson, oddviti Mýrdalshrepps, sem er viss um að það verði mikið um ferðamenn í sveitarfélaginu í sumar.Aðsend

Þannig að menn bera sig almennt vel?

„Já, auðvitað er ekkert hægt að draga dul yfir það að þetta hefur haft gríðarlega áhrif. Hérna fór atvinnuleysið upp fyrir 50 prósent um tíma á svæðinu en engu að síður finn ég bara að ferðaviljinn hjá erlendum ferðamönnum er til staðar.“

Einar Freyr er handvissum að sumarið verið gott.

„Já, já, að sjálfsögðu og ég bara heyri það á ferðaþjónustuaðilum að bókunarstaðan fyrir sumarið er nokkuð góð og ferðaskrifstofur virðast vera bjartsýnar líka,“ segir Einar Freyr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×