Körfubolti

Durant meiddur enn á ný

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kevin Durant haltraði af velli í nótt.
Kevin Durant haltraði af velli í nótt. EPA-EFE/JASON SZENES

Kevin Durant, einn albesti körfuboltamaður síðari ára, meiddist í nótt og er óttast að hann gæti verð frá í dágóðan tíma. Hann fékk högg á hnéð er liðsfélagi hans lenti illa á honum. Atvikið má sjá í fréttinni.

Brooklyn Nets vann nokkuð sannfærandi 15 stiga sigur á annars slöku liði New Orleans Pelicans í nótt. Durant skoraði 12 stig, tók 3 fráköst og gaf 2 stoðsendingar á þeim tólf mínútum sem hann spilaði.

Durant var að verjast hraðaupphlaupi Pelicans þegar keyrt var utan í liðsfélaga hans Bruce Brown með þeim afleiðingum að Brown flaug aftur á bak og rakst í hné Durants með þeim af afleiðingum að hann þurfti að fara af velli.

Nets staðfestu fljótlega að Durant myndi ekki halda leik áfram og nú hefur NBA-sérfræðingurinn Adrian Wojnarowski staðfest að Durant þurfi að fara í segulómun til að athuga hvort hnéð sé í lagi eður ei.

Þetta er mikið högg fyrir Nets og Durant en hann missti af öllu tímabilinu 2019/2020 eftir að hafa slitið hásin í úrslitum NBA-deildarinnar sumarið 2019. Þá glímdi hann við ýmis smávægileg meiðsli á síðustu leiktíð en virtist hafa náð sér og hefur spilað glimrandi vel það sem af er núverandi tímabil.

Nú er spurning hvort Durant verði enn og aftur frá vegna meiðsla. Ef svo er ljóst að möguleikar Nets á titlinum eru orðnir litlir sem engir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×