Þegar rennt er yfir samfélagsmiðla virðist sem nær annar hver Íslendingur hafi farið til Tenerife yfir jól og áramót - eða sé staddur á eyjunni þessa stundina. Færsla Ágústs Beinteins Árnasonar á TikTok hér fyrir neðan gefur ef til vill ákveðna vísbendingu um andrúmsloftið á Tenerife um jólin.
Tenerife er vinsælasti áfangastaður Play þessa stundina en síðustu sex vikur, frá 1. desember til 15. janúar, seldi félagið 4000 flugsæti til eyjunnar. Mikill áhugi hefur einnig verið á Tenerife hjá Icelandair, sem flogið hefur 29 sinnum til og frá Tenerife á tímabilinu - þar af ellefu sinnum það sem af er janúar.
Og Tenerife-áhugi Íslendinga gæti hæglega verið í hæstu hæðum en samkvæmt frétt Túrista flugu fleiri Íslendingar til Tenerife á seinni helmingi árs í fyrra en fyrir heimsfaraldur.
Íslenska alls staðar
Ingveldur Anna Sigurðardóttir varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins er stödd á Tenerife ásamt fjölskyldu sinni.
Hún hefur verið þar í rúma viku og lætur ákaflega vel af dvölinni.

Ingveldur segir að ekki sé þverfótað fyrir Íslendingum á eyjunni.
„Maður heyrir íslensku við sundlaugarbakkann, í fyrradag sátum við við hliðina á Íslendingum á veitingastað og við vorum í minigolfi áðan og þar voru að minnsta kosti 10-15 Íslendingar á undan okkur,“ segir Ingveldur.
Í útlöndum komi það henni venjulega á óvart að rekast á Íslending.
Sú sé alls ekki raunin á Tenerife um þessar mundir þar sem Íslendingarnir virðast rekast á hver annan.
Og sækja sér vænan skammt af D-vítamíni í sólarleysinu sem landsmenn eru margir hverjir orðnir þreyttir á.
„Þetta er svona annar heimavöllur okkar Íslendinga. Þetta er bara mjög súrrealískt.“