Handbolti

Svíar kjöldrógu Pólverja í fyrri hálfleik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Eric Johansson skoraði þrjú mörk fyrir Svía í kvöld.
Eric Johansson skoraði þrjú mörk fyrir Svía í kvöld. Marijan Murat/picture alliance via Getty Images

Svíþjóð vann afar sannfærandi tíu marka sigur er liðið mætti Pólverjum í milliriðli tvö á EM í handbolta í kvöld. Lokatölur urðu 28-18, en Svíar leiddu með átta mörkum í hálfleik.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í upphafi fyrri hálfleiks og pólska liðið hélt í við það sænska framan af leik. Pólverjar minnkuðu muninn í 6-5, en þá tóku Svíar öll völd á vellinum. Það sem eftir lifði hálfleiksins skoruðu Pólverjar aðeins eitt mark gegn átta mörkum Svía og staðan því 14-6 þegar gengið var til búningsherbergja.

Sænska liðið byrjaði síðari hálfleikinn eins og það endaði þann fyrri og jók forystu sína hratt. Liðið náði mest 13 marka forskoti í stöðunni 23-10, en pólska liðið náði þó að klóra í bakkann seinasta stundarfjórðunginn. Sigur Svía var þó aldrei í neinni hættu og lokatölur urðu 28-18.

Svíar eru nú í öðru sæti milliriðils tvö með fjögur stig eftir þrjá leiki, tveimur stigum meira en Noregur og Þýskaland sem sitja í þriðja og fjórða sæti, en Noregur og Þýskaland mætast á eftir.

Pólverjar sitja hins vegar á botni riðilsins án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×