Fótbolti

Birkir kom inn á sem varamaður í stórsigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Birkir Bjarnason og félagar sitja nú í þriðja sæti deildarinnar.
Birkir Bjarnason og félagar sitja nú í þriðja sæti deildarinnar. Vísir/Vilhelm

Birkir Bjarnason og félagar hans í Adana Demirspor unnu 5-0 stórsigur er liðið tók á móti Karagumruk í tyrknesku deildinni í fótbolta í dag. Birkir byrjaði á varamannabekk heimamanna en koma inn á þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka.

Gestirnir í Karagumruk komu sér í vandræði eftir hálftíma leik þegar Yann Karamoh fékk að líta beint rautt spjald og því þurfti liðið að spila manni færri seinasta klukkutíman.

Heimamenn í Adana Demirspor nýttu sér liðsmuninn þegar Britt Assombalonga kom liðinu yfir á 36. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik.

Britt Assombalonga lagði upp annað mark liðsins á 59. mínútu fyrir Yunus Akgun og skoraði svo sitt annað mark og þriðja mark Adana Demirspor þegar rúmar tuttugu mínútur voru til leiksloka.

Ítalinn skrautlegi Mario Balotelli kom inn af varamannabekknum fyrir Adana Demirspor á 82. mínútu og hann skoraði fjórða mark liðsins aðeins mínútu síðar.

Yunus Akgun gulltryggði svo 5-0 stórsigur heimamanna með sínu öðru marki í uppbótartíma.

Sigurinn lyftir Birki og félögum upp í þriðja sæti deildarinnar með 37 stig eftir 23 leiki, 14 stigum á eftir toppliði Trabzonspor.

Karagumruk situr hins vegar í 12. sæti deildarinnar með 30 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×