Reykjavíkurleikarnir hefjast á laugardaginn og standa yfir í rúma viku eða til 6. febrúar. Alls verður keppt í 20 íþróttagreinum á níu keppnisdögum og í þetta sinn verður ekki bara einstaklingskeppni heldur einnig liðakeppni í nokkrum greinum.
Mótshaldarar halda í vonina um að áhorfendur geti mætt á einhvern hluta leikanna en eins og er koma samkomutakmarkanir stjórnvalda í veg fyrir það.
Eins og fjallað var um á Vísi í morgun verður liðakeppni í CrossFit í ár þar sem sannkölluð heimsklassalið verða á ferðinni. Einnig verður liðakeppni í skák, strandblaki og dansi, en skák og strandblak eru nýjar greinar á leikunum.
Á laugardag og sunnudag verður keppt í alls átta greinum, þar sem meðal annars er von á 40 erlendum keppendum sem glíma munu við sterkustu júdókappa Íslands.