Fótbolti

Mane leikfær í 8-liða úrslitin þrátt fyrir höfuðhöggið

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Mane í leik með Senegal.
Mane í leik með Senegal. vísir/getty

Senegalska knattspyrnusambandið hefur staðfest að aðalstjarna landsliðsins, Sadio Mane, verði í leikmannahópnum sem mætir Miðbaugs Gíneu í 8-liða úrslitum Afríkumótsins á morgun.

Mane þurfti að fara af velli vegna höfuðmeiðsla þegar Senegal lagði Grænhöfðaeyjar í 16-liða úrslitum en hann skoraði reyndar annað marka Senegal í 2-0 sigri, eftir að hafa orðið fyrir höfuðhöggi.

Mane var fluttur á sjúkrahús í kjölfarið og því óttast að hann myndi ekki vera búinn að jafna sig fyrir leik morgundagsins.

Abdourahmane Fdior, læknir senegalska liðsins, segir að skoðun á Mane hafi leitt í ljós að hann hefði ekki fengið heilahristing við höggið og allar rannsóknir styðji að hann sé leikfær.

Mikið hefur verið fjallað um vinnubrögð senegalska læknateymisins í enskum fjölmiðlum undanfarna daga en Mane er einnig ein skærasta stjarna ensku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir.

Hefur það verið gagnrýnt harkalega að Mane skuli hafa verið haldið áfram inn á vellinum en Mane spilaði í sextán mínútur eftir höfuðhöggið áður en honum var skipt af velli.


Tengdar fréttir

Liverpool hefur miklar áhyggjur af höfuðhöggi Mane

Senegal hefur fengið á sig talsverða gagnrýni fyrir meðhöndlun sína á Liverpool leikmanninum Sadio Mane í leik Senegal og Grænhöfðaeyja í sextán liða úrslitum Afríkukeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×