Wüst hefur nú unnið til gullverðlauna á fimm Vetrarólympíuleikum. Enginn annar íþróttamaður hefur afrekað það.
From Turin 2006 to Beijing 2022
— Eurosport (@eurosport) February 7, 2022
Ireen Wust is the first athlete to win individual gold at Olympic Games #Beijing2022 | @Ireenw pic.twitter.com/Bb9fdIMidD
Ekki nóg með að Wüst hafi unnið gullið í 1.500 metra skautahlaupinu heldur setti hún nýtt Ólympíumet, 1:53,28 mínútur. Miho Takagi frá Japan varð önnur og landa Wüst, Antoinette de Jong, þriðja.
Eftir keppnina í dag minntist Wüst vinkonu sinnar, skautahlauparans Paulien van Deutekom, sem lést í janúar 2019 af völdum lungnakrabbameins.
„Ég sakna hennar á hverjum degi, sérstaklega á stundum eins og þessari. Venjulega værum við að talast við í síma og gráta saman. Það er ekki hægt núna en kannski er hún að halda partí þarna uppi,“ sagði Wüst.

Þetta eru sjöttu gullverðlaunin sem Wüst vinnur á Vetrarólympíuleikum. Auk þess hefur hún unnið fimm silfurverðlaun og ein bronsverðlaun. Wüst getur enn bætt verðlaunum í safnið en hún á eftir að keppa í þúsund metra skautahlaupi á leikunum í Peking.
Hin 35 ára Wüst er sigursælasti Ólympíufari Hollands frá upphafi og sigursælasti skautahlaupari í sögu Vetrarólympíuleikanna. Hún ætlar að leggja skautana á hilluna í næsta mánuði.