Fótbolti

Ferlinum mögulega lokið eftir spark í fjörutíu manna ólátum

Sindri Sverrisson skrifar
Pepe var heitt i hamsi á Drekavöllum í Porto á föstudaginn.
Pepe var heitt i hamsi á Drekavöllum í Porto á föstudaginn. Getty/Zed Jameson

Fyrirliði Porto, varnarmaðurinn Pepe, er kominn í tveggja leikja bann og gæti fengið allt að tveggja ára bann fyrir sinn þátt í 40 manna óeirðum í toppslag portúgalska fótboltans um helgina.

Það sauð allt upp úr þegar flautað var til leiksloka í 2-2 jafntefli Porto og Sporting Lissabon á föstudagskvöld. Pepe var á meðal fjögurra sem fengu að líta rauða spjaldið og er einn af átta mönnum sem hafa fengið sekt eða bann í kjölfarið á ólátunum.

Hér að neðan má sjá hluta af því sem á gekk en Pepe er gefið að sök að hafa sparkað í Hugo Viana, fyrrverandi leikmann Newcastle, sem er í þjálfarateymi Sporting.

Portúgalski miðillinn A Bola segir að verði Pepe fundinn sekur um að hafa ráðist á þjálfara andstæðinganna eigi hann yfir höfði sér bann sem geti varað allt frá tveimur mánuðum til tveggja ára.

Með tilliti til þess að Pepe, sem lengst af síns ferils lék með sigursælu liði Real Madrid, verður 39 ára síðar í þessum mánuði gæti mögulegt bann því markað endalok ferilsins.

Pepe hefur haft orð á sér fyrir að vera fauti innan vallar en hann hafði þó ekki fengið rautt spjald síðan í bikarleik með Besiktas gegn Fenerbahce í Tyrklandi árið 2018.

Bæði leikmönnum og þjálfurum refsað

Fjöldi fleiri leikmanna og þjálfara þarf að sæta refsingu fyrir sinn þátt í ólátunum á föstudaginn.

Joao Palhinha, leikmaður Sporting, er kominn í þriggja leikja bann og fékk 1.530 evru sekt fyrir að slá til mótherja. Sebastian Coates, sem einnig leikur með Sporting, fékk sömuleiðis sekt fyrir sitt rauða spjald. Þriðji leikmaður Sporting, Bruno Tabata, gæti fengið langt bann fyrir að hafa ýtt þjálfara Porto og Matheus Reis gæti einnig fengið refsingu.

Agustin Marchesin, markvörður Porto, fékk tveggja leikja bann fyrir að sparka til leikmanns andstæðinganna, og Ruben Amorim stjóri Sporting og Carlos Fernandes aðstoðarmaður hans fengu eins leiks bann fyrir að fara inn á völlinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×