Handbolti

„Bjarki Már Elísson er ekki mennskur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarki Már Elísson átti hvað stærstan þátt í því að Lemgo náði í stig gegn sterku liði Nantes.
Bjarki Már Elísson átti hvað stærstan þátt í því að Lemgo náði í stig gegn sterku liði Nantes. vísir/vilhelm

Bjarki Már Elísson fór hamförum þegar Lemgo gerði jafntefli við Nantes í Evrópudeildinni í handbolta í gær. Franskur fjölmiðill lýsti frammistöðu hans sem ómennskri.

Bjarki hefur verið í miklum ham síðan greint var frá félagaskiptum hans til Veszprém á föstudaginn. Hann skoraði níu mörk úr níu skotum þegar Lemgo tapaði fyrir Bergischer, 32-27, í þýsku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. 

Bjarki bætti um betur í leiknum gegn Nantes í gær og skoraði hvorki fleiri né færri en fimmtán mörk, úr fimmtán skotum. Í síðustu tveimur leikjum Lemgo hefur landsliðsmaðurinn því skorað samtals 24 mörk án þess að klikka á skoti.

Nantes leiddi nánast allan tímann í leiknum gegn Lemgo í gær og þegar átta mínútur voru eftir var staða Frakkanna afar vænleg, enda fjórum mörkum yfir, 30-34. En Lemgo-menn gáfust ekki upp og komu til baka með Bjarka fremstan í flokki. Hann skoraði síðustu sex mörk þýska liðsins sem náði jafntefli, 37-37.

Í umfjöllun franska vefmiðilsins Handnews.fr er ein millifyrirsögnin svohljóðandi: Bjarki Már Elísson er ekki mennskur.

Bjarki skoraði sjö mörk í fyrri hálfleik en var svo nokkuð rólegur framan af þeim seinni og skoraði aðeins eitt mark á fyrstu tuttugu mínútum hans. En undir lokin hrökk hann eftirminnilega í gang. Hann skoraði sjö mörk á síðustu níu mínútum seinni hálfleiks, þar af síðustu sex mörk Lemgo eins og áður sagði. Sex af mörkum Bjarka gegn Nantes komu af vítalínunni.

Lemgo er með átta stig í 4. sæti B-riðils Evrópudeildarinnar og er komið áfram í sextán liða úrslit keppninnar.

Bjarki hefur alls skorað 71 mark í Evrópudeildinni í vetur og er markahæsti leikmaður keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×