Innlent

Neitaði að yfir­gefa hótel í mið­borginni

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var nokkrum sinnum kölluð út í gærkvöldi og í nótt vegna umferðaróhappa.
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var nokkrum sinnum kölluð út í gærkvöldi og í nótt vegna umferðaróhappa. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu þurfti að sinna ýmsum verkefnum í gærkvöldi og í nótt. Talsvert var um umferðaróhöpp og að ökumenn hafi verið stöðvaðir undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Skömmu fyrir miðnætti var lögregla kölluð út í tvígang í miðborg Reykjavíkur, annars vegar vegna manns sem hafði fallið í jörðina og rotast. Hitt útkallið sneri að manni sem neitaði að yfirgefa hótel í miðborginni. Manninum var vísað út, segir í dagbók lögreglu.

Um klukkan 20:30 í gærkvöldi var óskað eftir aðstoð lögreglu á veitingastað í hverfi 203 í Kópavogi vegna ölvaðs manns sem lá á gólfi staðarins. Segir að hann hafi verið til vandræða.

Nokkru fyrr hafði lögregla verið kölluð út vegna einstaklings í hverfi 111 í Reykjavík sem var til vandæða líkt og það er orðað. Maðurinn var hins vegar farinn þegar lögreglu bar að garði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×