Sport

Fyrrum UFC-meistari handtekinn fyrir að skjóta barnaníðing

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cain Velasquez sést hér eftir síðasta UFC bardaga sinn þar sem hann tapaði á móti Francis Ngannou.
Cain Velasquez sést hér eftir síðasta UFC bardaga sinn þar sem hann tapaði á móti Francis Ngannou. Getty/Josh Hedges

UFC-goðsögnin Cain Velasquez reyndi að taka lögin í sínar hendur þegar hann frétti af því að barnaníðingur hefði brotið á barni innan fjölskyldunnar.

Velasquez var handtekinn af lögreglunni í San Jose í gær grunaður um manndrápstilraun í úthverfi borgarinnar.

Cain Velasquez er margfaldur heimsmeistari í UFC og einn af þeim stóru í sportinu og handtaka hans hefur því vakið mikla athygli.

Washington Post hefur heimildir fyrir því að Velasquez hafi þarna skotið barnaníðing sem hann taldi að hefði brotið kynferðislega á barni innan fjölskyldunnar.

Velasquez skaut á bíl með tveimur mönnum innanborðs og annar þeirra var fluttur á sjúkrahús. Hann er ekki sagður vera í lífshættu.

Sá sem slasaðist meira en sagður vera stjúpfaðir þess sem Velasquez ætlaði að skjóta.

Umræddur barnaníðingur hafði verið látinn laus gegn tryggingu á föstudaginn var en hann hafði áður verið handtekinn fyrir að brjóta kynferðislega á barni undir fjórtán ára.

Hinn 39 ára gamli Velasquez var ekki laus gegn tryggingu og er nú í Santa Clara fangelsinu en hann fer fyrir dómara seinna í dag.

Velasquez er frá Kaliforníu og æfir og þjálfari í American Kickboxing Academy í San Jose sem er aðeins átta kílómetrum frá þeim stað sem skotárásin varð.

Velasquez varð þungavigtarmeistari UFC í tvígang. Hann vann beltið fyrst árið 2011 og hélt því síðan aftur á árunum 2012 til 2015. Hans fyrsti heimsmeistaratitil kom í hús eftir sigur á Brock Lesnar á UFC 121.

Eftir að Velasquez hætti að keppa í UFC þá færði hann sig yfir í fjölbragðaglímuna hjá WWE.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×