Á 8. þingi Starfsgreinasambandsins, sem fram fer í Hofi á Akureyri dagana 23. - 25. mars, verður kosið til formanns, varaformanns og framkvæmdastjórnar sambandsins. Ljóst er að kosið verður um nýjan formann eftir tólf ára setu fráfarandi formanns.
„Ég tilkynnti um þetta í vor innan okkar raða. Ég er orðinn 69 ára og búinn að vera formaður í tólf ár. Það er kominn tími til að láta einhverjum öðrum þetta eftir,“ segir Björn í samtali við Morgunblaðið, sem greindi fyrst frá.
Björn er jafnframt formaður Einingar-Iðju og hyggst hann láta af því starfi að loknu núverandi kjörtímabili sem lýkur vorið 2023.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness tilkynnti um framboð sitt til formanns Starfsgreinasambandsins á vefsíðu VLFA á dögunum.
„Að undanförnu hefur hópur formanna innan SGS og fulltrúa sem munu sitja þingið haft samband við mig og skorað á mig að bjóða mig fram til formanns SGS,“ segir hann í tilkynningunni.