Skoðun

Hvað er fram­undan í ljósi hörmunga sem steðja að og er ein­hver von?

Gylfi Ingvarsson skrifar

Það er ljóst að takast verður á við vanda sem skapast m.a. vegna fjölgunar flóttamanna, loftslagsvárinnar og vandamála í heilbrigðis- og hollustumálum. Allt eru þetta málefni sem snúa að fólki frá vöggu til grafar. Það kostar mikla fjármuni að takast á við þennan vanda en þeir eru til. Hins vegar verður samfélagið að hugsa upp á nýtt hvernig við náum í þessa fjármuni svo hægt verði að fjármagna fyrirliggjandi verkefni. Við búum í ríku landi með mikil verðmæti en þar er verðmætum vægast sagt mjög misskipt.

Það er grundvallaratriði í góðum búskap að slátra ekki mjólkurkúnum með því að selja það sem ríkið á (ríkið það erum við). Miklum fremur ættum við að huga að því að tryggja þjóðareign á bönkum og auðlindunum til lands og sjávar.

Sóknarfæri til að fjármagna stoðir samfélagsins er að finna í eftirfarandi atriðum:

  • Í veiðiheimildum (fiskistofnarnir eru sameign þjóðarinnar),
  • skattlagningum á fiskeldi með sanngjörnum hætti en hægt er að sækja viðmið annars staðar í heiminum,
  • stóreignafólk verður að skila til samfélagsins stórauknu framlagi,
  • íslensk fyrirtæki t.d. skipafélög útgerðin verði skráð hér á landi,
  • raforkuna og hitann á að nýta hér á landi eins og til matvælaframleiðslu á hagstæðan hátt og nýsköpunar og tryggja verður næga raforku til allra landshluta,
  • það þarf að gera úttekt á húsnæðismálum og greina allt brask sem átt hefur sér stað í kaupum og sölum á íbúðum sem ýtt hefur upp verði á íbúðum á óeðlilegan hátt,
  • Það á ekki að eiga sér stað að fjársterkir aðilar kaupi upp íbúðir í fjármálabraski svo ekki sé talað um peningaþvætti.

Það þarf að stöðva sértökuhópa eins og dæmin sanna m.a. hjá ICELANDAIR og víðar.

Það þarf að sjá til þess að jaðarhópar í okkar samfélagi eins og eldri borgarar og öryrkjar geti lifað innihaldsríku lífi. Það á að aðstoða fólk í sárri fátækt, þessu má ekki gleyma.

Vilji er allt sem þarf en það þarf dug og kjark til þess að framkvæma.

Stóra spurningin er hvort hann sé til staðar eða hafa þau öfl sem vilja verja sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni áfram vinninginn? Það er ákall í samfélaginu um úrbætur.

Höfundur er vélvirki og eldri borgari.




Skoðun

Sjá meira


×