Handbolti

Sandra skoraði 14 í naumum sigri Álaborgar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sandra Erlingsdóttir átti stórleik í dag.
Sandra Erlingsdóttir átti stórleik í dag. Vísir/Jónína Guðbjörg

Sandra Erlingsdóttir átti sannkallaðan stórleik í liði EH Álaborgar er liðið vann tveggja marka útisigur gegn DHG Óðinsvé í dönsku B-deildinni í handbolta í dag, 32-30.

Sandra skoraði hvorki meira né minna en 14 mörk fyrir liðið, en þar af komu sjö af vítalínunni. Næst á eftir henni í Álaborgarliðinu var Emma Aagaard Poulsen með sex mörk.

Jafnræði var með liðunum allt frá fyrstu mínútu og í hálfleik voru það heimakonur frá Óðinsvé sem leiddu með einu marki, 14-13.

Sandra og stöllur hennar reyndust svo sterkari í síðari hálfleik og unnu að lokum góðan tveggja marka sigur, 32-30.

Álaborg situr í fimmta sæti deildarinnar með 24 stig eftir 19 leiki, átta stigum meira en Óðinsvé sem situr sæti neðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×