Körfubolti

Sigrún orðin sú frákastahæsta í sögunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, til vinstri, og Dagný Lísa Davíðsdóttir geta báðar orðið deildarmeistarar á sínu fyrsta tímabili með Fjölni.
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, til vinstri, og Dagný Lísa Davíðsdóttir geta báðar orðið deildarmeistarar á sínu fyrsta tímabili með Fjölni.

Körfuboltakonan Sigrún Sjöfn Ámundadóttir sló um helgina metið yfir flest fráköst í efstu deild kvenna í körfubolta. Það gerði hún í sigri Fjölnis í Grindavík.

Sigrún Sjöfn tók fimm fráköst í leiknum og komst þar með fram úr Hildi Sigurðardóttir sem átti metið áður. Sigrún hefur nú tekið 2887 fráköst í efstu deild kvenna.

Þær Sigrún og Hildur voru jafnar fyrir leikinn með 2882 fráköst en Sigrún sló það með sínu fyrsta frákasti í leiknum

Hildur tók sín fráköst í 347 leikjum en Sigrún var að leika sinn 350. deildarleik á ferlinum.

Tölfræði hefur verið skráð í efstu deild kvenna frá og með 1994-95 tímabilinu. Anna María Sveinsdóttir átti lengi frákastametið en það vantar meira en helminginn á hennar ferli því engin fráköst voru skráð á fyrstu níu tímabilum Önnu Maríu í efstu deild.

Sigrún Sjöfn hefur náð öllum þessum fráköstum í búningi sex félaga eða sem leikmaður Hauka (227), KR (1254), Hamars (166), Grindavíkur (205), Skallagríms (974) og nú á sínu fyrsta tímabili með Fjölni (61).

Sigrún lék sitt fyrsta tímabil með Haukum 2004-5 eða þegar hún var aðeins sextán ára gömul.

Sigrún hækkaði sig líka á öðrum tölfæðilista í Grindavík en hún komst þá upp í þriðja sætið yfir flestar stoðsendingar í efstu deild en aðeins Hildur Sigurðardóttir og Helena Sverrisdóttir hafa gefið fleiri stoðsendingar en hún. Sigrún komst einni stoðsendingu upp fyrir Öldu Leif Jónsdóttur í leiknum á laugardaginn.

Sigrún er síðan í fjórða sæti í skoruðu stigum með 3993 og vantar því aðeins sjö stig til að verða sú fjórða á eftir Birnu Valgarðsdóttur, Önnu Maríu Sveinsdóttur og Hildi Sigurðardóttur til að skora fjögur þúsund stig í efstu deild kvenna.

  • Flest fráköst í sögu efstu deildar kvenna
  • 1. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 2887
  • 2. Hildur Sigurðardóttir 2882
  • 3. LeLe Hardy 2333
  • 4. Helena Sverrisdóttir 2167
  • 5. Signý Hermannsdóttir 2138
  • 6. Ragna Margrét Brynjarsdóttir 2059
  • 7. Bryndís Guðmundsdóttir 1928
  • 8. Birna Valgarðsdóttir 1924
  • 9. Þórunn Bjarnadóttir 1869
  • 10. Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 1796
  • 11. Anna María Sveinsdóttir 1656
  • 12. Margrét Kara Sturludóttir 1637
  • (Fráköst voru fyrst skráð tímabilið 1994-95)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×