Fótbolti

Grealish bað dómarann um að sleppa því að reka Aurier út af

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jack Grealish virtist ósáttari við rauða spjaldið sem Serge Aurier fékk heldur en hann sjálfur.
Jack Grealish virtist ósáttari við rauða spjaldið sem Serge Aurier fékk heldur en hann sjálfur. getty/Alex Pantling

Jack Grealish bað dómarann í vináttulandsleik Englands og Fílabeinsstrandarinnar um að sleppa því að reka Serge Aurier af velli. Hann taldi að Englendingar myndu græða meira á því að spila gegn fullskipuðu liði Fílbeinsstrendinga.

England vann öruggan sigur á Fílabeinsströndinni, 3-0, í leiknum á Wembley í gær. Ollie Watkins kom Englendingum yfir á 30. mínútu. Tíu mínútum síðar syrti enn í álinn hjá Fílbeinsstrendingum þegar Serge Aurier fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Grealish var samt allt annað en sáttur með þessa ákvörðun belgíska dómarans Eriks Lambrechts og bað hann um að þyrma Aurier.

„Ég vildi halda honum inni á því þetta er vináttulandsleikur og þú færð meira út úr því að spila gegn ellefu leikmönnum,“ sagði Grealish eftir leik. „Ég held að það hefði verið meiri áskorun fyrir okkur. Ég sagði við dómarann: í alvöru!“

Fimm mínútum eftir brottvísun Auriers kom Raheem Sterling Englandi í 2-0. Tyrone Mings skoraði svo þriðja mark enska liðsins í uppbótartíma.

Grealish lék fyrstu 62 mínútur leiksins og var á meðal bestu manna vallarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×