„Baldur, töluvert hoknari af árum, reynslu og titlum síðan síðast, og knattspyrnuráð voru sammála um að ferlinum yrði ekki hægt að ljúka án þess að ná nokkrum leikjum í grænu!“ segir í tilkynningu á Facebook-síðu Græna hersins, stuðningsmannasveit Völsungs.
„Baldur færir okkar unga hóp mikið og er meira en til í að leiðbeina strákunum okkar innan sem utan vallar. Baldur á í safni sínu tvo Íslandsmeistaratitla og fimm bikartitla auk þess sem hann vann 2.deild með Völsungi árið 2003. Hann varð einnig Íslandsmeistari innanhús með Völsungi ári áður, sælla minninga,“ segir einnig í færslunni sem lesa má hér að neðan.
Alls hefur Baldur spilað 538 KSÍ leiki á ferlinum og skorað í þeim 129 mörk. Hann lék með Fjölni í Lengjudeildinni á síðustu leiktíð en hefur einnig leikið með Keflavík, KR, Stjörnunni og FH hér á landi. Þá lék hann með Bryne í Noregi og SönderjyskE í Danmörku á sínum tíma.
Völsungur leikur í 2. deild í sumar og hefur leik á útivelli gegn Víking Ólafsvík þann 7. maí næstkomandi.