Körfubolti

Elvar Már er genginn til liðs við Derthona

Atli Arason skrifar
Elvar Már Friðriksson í landsleiknum gegn Ítalíu í Ólafssal
Elvar Már Friðriksson í landsleiknum gegn Ítalíu í Ólafssal Bára Dröfn

Elvar Már Friðriksson er genginn til liðs við ítalska liðsins Derthona en þetta var tilkynnt rétt í þessu.

Elvar kemur til liðsins frá Antwerp Giants þar sem hann hefur leikið undanfarið en hann mun yfirgefa BNXT deildina sem sá leikmaður með flestar stoðsendingar, 7,3 stoðsendingar á leik.

Derthona er í fimmta sæti ítölsku Lega A deildarinnar sem er efsta deildin þar í landi. Liðið komst í úrslitaleik um ítalska bikarinn í ár.

Elvar Már stóð sig afar vel í landsleikjum Íslands gegn Ítalíu í febrúar síðastliðnum þar sem hann skoraði 27,5 stig, tók 5 fráköst og gaf 4 stoðsendingar að meðaltali yfir leikina tvo, frammistaða sem hefur sennilega vakið athygli ítalska liðsins.

Derthona er staðsett í Tortona í norður Ítalíu. Liðið hefur verið að taka miklum framförum en félagið komst upp í efstu deild fyrir tveimur árum. Yfirlýst markmið félagsins er að vera komið í evrópukeppni innan fárra ára en mikið fjármagn hefur verið lagt í liðið undanfarið og nýlega var byggð ný 5.000 sæta höll fyrir liðið, í bæjarfélagi sem telur um 30.000 íbúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×