Umfjöllun og viðtöl: ÍBV 37 - 36 Grótta | Sjötíu og þriggja marka naglbítur í Eyjum Einar Kárason skrifar 6. apríl 2022 18:46 Úr leik ÍBV og Gróttu. vísir/hulda margrét Eyjamenn hófu leikinn betur og gestirnir misstu boltann klaufalega trekk í trekk á fyrstu mínútum leiksins. ÍBV komst í 3-0 áður en Grótta kom boltanum loks í netið en við það vöknuðu gestirnir og skoruðu þrjú mörk gegn einu. Eftir tíu mínútna leik var staðan 7-5 fyrir ÍBV og náði Eyjaliðið mest fimm marka forustu í fyrri hálfleik. Þá var staðan 14-9 eftir rúmlega tuttugu mínútna leik. Seltyrningar skoruðu hinsvegar næstu þrjú mörkin og nýttu vel mistök heimamanna en undir lok fyrri hálfleiks gekk ekkert upp sóknarlega hjá þeim hvítklæddu. Þegar fyrri þrjátíu mínúturnar runnu sitt skeið var staðan jöfn, 17-17, en gestirnir skoruðu átta mörk á síðustu átta mínútum fyrri hálfleiks gegn þremur mörkum Eyjamanna. Það var því allt undir í síðari hálfleiknum. Gróttumenn skoruðu fyrstu tvö mörkin og komust þannig yfir í fyrsta skipti í leiknum. Næstu þrjú mörk voru hinsvegar Eyjamanna og svona átti síðari hálfleikurinn eftir að spilast. Liðin skiptust á að komast yfir og ómögulegt að segja til um hvort liðið myndi hafa betur. Þegar innan við tíu mínútur voru eftir áttu gestirnir möguleika á að komast þremur mörkum yfir en töpuðu boltanum klaufalega og ÍBV minnkaði muninn í stakt mark áður en þeir svo jöfnuðu leikinn. Undir lok leiks var staðan hnífjöfn, 35-35, þegar Björn Viðar Björnsson varði eitt af sex skotum sínum í leiknum og kastaði boltanum yfir völlinn endilangan og kom ÍBV yfir. Gróttumenn fengu vítakast þegar tíu sekúndur voru eftir og jöfnuðu leikinn. Heimamenn tóku þá leikhlé og lögðu í lokasókn. Sú sókn endaði á að Sigtryggur Daði Rúnarsson fékk boltann, lyfti sér upp og skaut boltanum upp í samskeytin þegar tvær sekúndur voru eftir. Þær sekúndur dugðu ekki til þess að koma boltanum að miðlínu og lauk leiknum því með eins marks sigri ÍBV í stórkostlegum handboltaleik. Af hverju vann ÍBV? Hefði leikurinn verið tveimur mínútum lengri hefðu Gróttumenn eins getað tekið stigin tvö, svo bilaður var þessu leikur. Grótta var alls ekki síðra liðið í leiknum en ÍBV í Eyjum er alltaf ÍBV í Eyjum. Hverjir stóðu upp úr? Sigtryggur Daði kom boltanum níu sinnum í net Gróttumanna, einu sinni oftar en Kári Kristján Kristjánsson. Í liði gestanna var Andri Þór Helgason atkvæðamestur með ellefu mörk, þar af sex af vítalínunni. Birgir Steinn Jónsson var honum næstur með níu mörk. Einar Baldvin Baldvinsson átti ágætis dag í markinu með fimmtán bolta varða. Hvað gekk illa? Skoruð voru samtals sjötíu og þrjú mörk í leiknum. Það segir það sem segja þarf. Hvað gerist næst? Eyjamenn etja kappi við HK á sunnudaginn næstkomandi á meðan Grótta færi KA í heimsókn þann sama dag. Erlingur R: Löndum sigri og skorum fullt af mörkum Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV.Vísir/Hulda Margrét ,,Við fengum nóg af mörkum, það er ljóst," sagði Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, eftir leik. ,,Leikurinn fer 37-36. Menn geta þá giskað á að það hafi verið lítið um varnarleik og markvörslu. Það er það sem stendur uppúr en þetta var hörkuleikur gegn spræku Gróttuliði." ,,Ef þú vilt að ég fari aðeins yfir leikinn í framhaldinu þá náðum við ágætis forustu í fyrri hálfleik en köstum henni auðveldlega frá okkur með mistökum í sóknarleik þannig að við förum inn í hálfleik í stöðunni 17-17. Svo er þetta bara baráttuleikur. Við lendum undir í seinni hálfleik en sýnum frábæra baráttu og allt það í lokin þannig að það er ekki hægt að saka strákana um að hafa ekki tekið á og lagt sig fram." Átta mörk á sig á átta mínútum ,,Við gerum fimm mistök undir lok fyrri hálfleiks. Við vorum ekki klókir og hefðum getað gert miklu betur. Ég var svekktur með þann kafla og við ræddum það í hálfleik að við þyrftum að vera klókari þegar við erum komnir með slíka forustu en við náum að landa sigri og skorum fullt af mörkum. Það má segja að leikurinn hefði ekki mátt vera mikið lengri svo þeir myndu nú ekki ná að skora. Við skorum gott mark í lokin." ,,Við erum þunnskipaðir varnarlega, sérstaklega eftir að Arnór (Viðarsson) fékk þrjár brottvísanir (og útilokun). Við þurfum að þétta raðirnar varnarlega og spá í hvað við getum gert núna þegar við lendum í slíkri stöðu. Við þurfum kannski að bregðast öðruvísi við en við höfum verið að gera í vetur. Það er bara verkefni." Arnar Daði: Ég verð að vera heiðarlegur Arnar Daði, þjálfari Gróttu.Vísir/Elín Björg Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, var skiljanlega miður sín að leik loknum og átti erfitt með að koma upp orðum. ,,Ég get ekki lýst tilfinningum mínum núna. Ég veit ekkert. Ég er bara að hugsa um þetta augnablik í lokin og síðustu tíu mínúturnar. Ég mun aldrei horfa á þennan leik aftur en ég vona að fólk sé sammála mér og að ég sé ekki staurblindur á mitt eigið lið en ég verð að vera heiðarlegur eins og ég hef verið í allan vetur, en við vorum flautaðir úr leik í dag." ,,Við vorum manni færri nánast allar síðustu sex mínúturnar og við gerðum nákvæmlega allt sem við þurftum til að innbyrða eitt stig sem hefði dugað okkur til að fara í úrslitaleik gegn KA. Við fáum víti þegar tíu sekúndur eru eftir og dómarar leiksins, sem eru nýjir í faginu, en hafa fengið ótrúlegt lof fyrir sínar frammistöður, taka þá ákvörðun að stöðva leikinn þegar tíu sekúndur eru eftir og eina ástæðan sem mér dettur í hug er það sé til þess að ÍBV myndi fá tækifæri til að skora í lokasókninni. Annars gerðum við allt til að innbyrða stig sem hefði dugað okkur til að eiga möguleika í lokaumferðinni." ,,Við gerðum nákvæmlega það sem við ætluðum að gera. Við byrjuðum ekki nægilega vel fyrstu tíu mínúturnar en í fimmtíu mínútur erum við betri að mörgu leyti. Við eigum í erfiðleikum þegar við erum manni færri og það koma áhlaup og svo framvegis. Stig hefði dugað okkur. Við fiskum víti á lokasekúndum leiksins en þeir ákveða að stoppa leikinn og ég skil það ekki." ,,Þeir gefa mér þrjár ástæður fyrir því. Sú fyrsta er sú að það væri venjan að stoppa tímann. Ég sagði nei, það er ekki þannig. Önnur var sú að hann lá í netinu. Ég sagði að þeim beri ekki skylda til að stöðva leikinn ef einhver liggur í gólfinu. Sú þriðja er sú að hann hafi verið að tefja töku vítisins en þeir stoppa tímann innan við sekúndu eftir að vítið er dæmt, þannig að síðasta ástæðan er líklega versta ástæðan. Þetta meikar engan sens." ,,Kannski er það uppsafnað hvernig ég hef talað í vetur en það verður einhver að meta það, en við áttum ekki sjéns síðustu tíu mínúturnar. Við máttum ekki gera neitt og fengum ekki neitt," sagði tilfinningaríkur Arnar að lokum. Olís-deild karla ÍBV Grótta
Eyjamenn hófu leikinn betur og gestirnir misstu boltann klaufalega trekk í trekk á fyrstu mínútum leiksins. ÍBV komst í 3-0 áður en Grótta kom boltanum loks í netið en við það vöknuðu gestirnir og skoruðu þrjú mörk gegn einu. Eftir tíu mínútna leik var staðan 7-5 fyrir ÍBV og náði Eyjaliðið mest fimm marka forustu í fyrri hálfleik. Þá var staðan 14-9 eftir rúmlega tuttugu mínútna leik. Seltyrningar skoruðu hinsvegar næstu þrjú mörkin og nýttu vel mistök heimamanna en undir lok fyrri hálfleiks gekk ekkert upp sóknarlega hjá þeim hvítklæddu. Þegar fyrri þrjátíu mínúturnar runnu sitt skeið var staðan jöfn, 17-17, en gestirnir skoruðu átta mörk á síðustu átta mínútum fyrri hálfleiks gegn þremur mörkum Eyjamanna. Það var því allt undir í síðari hálfleiknum. Gróttumenn skoruðu fyrstu tvö mörkin og komust þannig yfir í fyrsta skipti í leiknum. Næstu þrjú mörk voru hinsvegar Eyjamanna og svona átti síðari hálfleikurinn eftir að spilast. Liðin skiptust á að komast yfir og ómögulegt að segja til um hvort liðið myndi hafa betur. Þegar innan við tíu mínútur voru eftir áttu gestirnir möguleika á að komast þremur mörkum yfir en töpuðu boltanum klaufalega og ÍBV minnkaði muninn í stakt mark áður en þeir svo jöfnuðu leikinn. Undir lok leiks var staðan hnífjöfn, 35-35, þegar Björn Viðar Björnsson varði eitt af sex skotum sínum í leiknum og kastaði boltanum yfir völlinn endilangan og kom ÍBV yfir. Gróttumenn fengu vítakast þegar tíu sekúndur voru eftir og jöfnuðu leikinn. Heimamenn tóku þá leikhlé og lögðu í lokasókn. Sú sókn endaði á að Sigtryggur Daði Rúnarsson fékk boltann, lyfti sér upp og skaut boltanum upp í samskeytin þegar tvær sekúndur voru eftir. Þær sekúndur dugðu ekki til þess að koma boltanum að miðlínu og lauk leiknum því með eins marks sigri ÍBV í stórkostlegum handboltaleik. Af hverju vann ÍBV? Hefði leikurinn verið tveimur mínútum lengri hefðu Gróttumenn eins getað tekið stigin tvö, svo bilaður var þessu leikur. Grótta var alls ekki síðra liðið í leiknum en ÍBV í Eyjum er alltaf ÍBV í Eyjum. Hverjir stóðu upp úr? Sigtryggur Daði kom boltanum níu sinnum í net Gróttumanna, einu sinni oftar en Kári Kristján Kristjánsson. Í liði gestanna var Andri Þór Helgason atkvæðamestur með ellefu mörk, þar af sex af vítalínunni. Birgir Steinn Jónsson var honum næstur með níu mörk. Einar Baldvin Baldvinsson átti ágætis dag í markinu með fimmtán bolta varða. Hvað gekk illa? Skoruð voru samtals sjötíu og þrjú mörk í leiknum. Það segir það sem segja þarf. Hvað gerist næst? Eyjamenn etja kappi við HK á sunnudaginn næstkomandi á meðan Grótta færi KA í heimsókn þann sama dag. Erlingur R: Löndum sigri og skorum fullt af mörkum Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV.Vísir/Hulda Margrét ,,Við fengum nóg af mörkum, það er ljóst," sagði Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, eftir leik. ,,Leikurinn fer 37-36. Menn geta þá giskað á að það hafi verið lítið um varnarleik og markvörslu. Það er það sem stendur uppúr en þetta var hörkuleikur gegn spræku Gróttuliði." ,,Ef þú vilt að ég fari aðeins yfir leikinn í framhaldinu þá náðum við ágætis forustu í fyrri hálfleik en köstum henni auðveldlega frá okkur með mistökum í sóknarleik þannig að við förum inn í hálfleik í stöðunni 17-17. Svo er þetta bara baráttuleikur. Við lendum undir í seinni hálfleik en sýnum frábæra baráttu og allt það í lokin þannig að það er ekki hægt að saka strákana um að hafa ekki tekið á og lagt sig fram." Átta mörk á sig á átta mínútum ,,Við gerum fimm mistök undir lok fyrri hálfleiks. Við vorum ekki klókir og hefðum getað gert miklu betur. Ég var svekktur með þann kafla og við ræddum það í hálfleik að við þyrftum að vera klókari þegar við erum komnir með slíka forustu en við náum að landa sigri og skorum fullt af mörkum. Það má segja að leikurinn hefði ekki mátt vera mikið lengri svo þeir myndu nú ekki ná að skora. Við skorum gott mark í lokin." ,,Við erum þunnskipaðir varnarlega, sérstaklega eftir að Arnór (Viðarsson) fékk þrjár brottvísanir (og útilokun). Við þurfum að þétta raðirnar varnarlega og spá í hvað við getum gert núna þegar við lendum í slíkri stöðu. Við þurfum kannski að bregðast öðruvísi við en við höfum verið að gera í vetur. Það er bara verkefni." Arnar Daði: Ég verð að vera heiðarlegur Arnar Daði, þjálfari Gróttu.Vísir/Elín Björg Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, var skiljanlega miður sín að leik loknum og átti erfitt með að koma upp orðum. ,,Ég get ekki lýst tilfinningum mínum núna. Ég veit ekkert. Ég er bara að hugsa um þetta augnablik í lokin og síðustu tíu mínúturnar. Ég mun aldrei horfa á þennan leik aftur en ég vona að fólk sé sammála mér og að ég sé ekki staurblindur á mitt eigið lið en ég verð að vera heiðarlegur eins og ég hef verið í allan vetur, en við vorum flautaðir úr leik í dag." ,,Við vorum manni færri nánast allar síðustu sex mínúturnar og við gerðum nákvæmlega allt sem við þurftum til að innbyrða eitt stig sem hefði dugað okkur til að fara í úrslitaleik gegn KA. Við fáum víti þegar tíu sekúndur eru eftir og dómarar leiksins, sem eru nýjir í faginu, en hafa fengið ótrúlegt lof fyrir sínar frammistöður, taka þá ákvörðun að stöðva leikinn þegar tíu sekúndur eru eftir og eina ástæðan sem mér dettur í hug er það sé til þess að ÍBV myndi fá tækifæri til að skora í lokasókninni. Annars gerðum við allt til að innbyrða stig sem hefði dugað okkur til að eiga möguleika í lokaumferðinni." ,,Við gerðum nákvæmlega það sem við ætluðum að gera. Við byrjuðum ekki nægilega vel fyrstu tíu mínúturnar en í fimmtíu mínútur erum við betri að mörgu leyti. Við eigum í erfiðleikum þegar við erum manni færri og það koma áhlaup og svo framvegis. Stig hefði dugað okkur. Við fiskum víti á lokasekúndum leiksins en þeir ákveða að stoppa leikinn og ég skil það ekki." ,,Þeir gefa mér þrjár ástæður fyrir því. Sú fyrsta er sú að það væri venjan að stoppa tímann. Ég sagði nei, það er ekki þannig. Önnur var sú að hann lá í netinu. Ég sagði að þeim beri ekki skylda til að stöðva leikinn ef einhver liggur í gólfinu. Sú þriðja er sú að hann hafi verið að tefja töku vítisins en þeir stoppa tímann innan við sekúndu eftir að vítið er dæmt, þannig að síðasta ástæðan er líklega versta ástæðan. Þetta meikar engan sens." ,,Kannski er það uppsafnað hvernig ég hef talað í vetur en það verður einhver að meta það, en við áttum ekki sjéns síðustu tíu mínúturnar. Við máttum ekki gera neitt og fengum ekki neitt," sagði tilfinningaríkur Arnar að lokum.