Á lista yfir þátttakendur í hlutafjárútboði Íslandsbanka, sem fjármála- og efnahagsráðuneytið birti fyrr í vikunni, kemur fram að félagið Snorrason Holdings hafi fengið úthlutun upp á 115 þúsund hluti sem samsvarar 13,5 milljónum króna. Baldur Snorrason, forstöðumaður hjá Festu, á tæpan þriðjungshlut í Snorrason Holding.
Festa fékk á sama tíma úthlutun upp á 8,4 milljónir hluta, eða sem nemur 985 milljónum króna. Í siðareglum lífeyrissjóðsins er ekki sérstaklega girt fyrir það að starfsmenn fjárfesti samhliða sjóðnum en þeim ber að „forðast hvers konar hagsmunaárekstra milli starfa þeirra og annarra athafna.“ Ekki náðist í Baldur við vinnslu fréttarinnar.
Samkvæmt svari frá Festu, sem barst eftir að fréttin var birt og lesa má í heild sinni að neðan, kemur fram að Baldur hafi ekki komið að rekstri Snorrason Holdings, né sitji hann þar í stjórn eða taki ákvarðanir á vettvangi þess. Hann hafi því ekki haft aðkomu að ákvörðun um þátttöku félagsins í útboði Íslandsbanka. Þegar honum varð þátttakan ljós hafi hann strax látið vita af henni hjá hagsmunaskráningu sjóðsins, þótt honum bæri ekki skylda til þess.
„Starfsmaður sjóðsins tók hvorki ákvörðun á vettvangi lífeyrissjóðsins né umrædds félags, hann bjó ekki yfir verðmyndandi upplýsingum umfram aðra á markaðnum og viðskiptin höfðu engin áhrif á hagsmuni lífeyrissjóðsins," segir í svari Festu.
Ráðuneytið birti listann tveimur dögum eftir að uppgjör viðskipta vegna sölu ríkissjóðs á 22,5 prósenta hlut í bankanum fyrir tæplega 53 milljarða króna hafði farið fram. Verðið í útboði ríkissjóðs var ákvarðað 117 krónur á hlut, eða um 4 prósentum lægra en lokaverð síðasta viðskiptadags. Það stendur núna í 128 krónum á hlut og hefur því hækkað um ríflega 9 prósent.
Samtals 140 innlendir einkafjárfestar, sem voru skilgreindir sem fagfjárfestar, keyptu í útboðinu fyrir um 16 milljarða króna, eða tæplega 31 prósent þeirrar fjárhæðar sem ríkissjóður seldi. Listinn gefur hins vegar ekki tæmandi mynd af umsvifum einkafjárfesta og fjárfestingafélaga í hluthafahópi Íslandsbanka eftir hlutafjárútboðið en stór hópur slíkra fjárfesta keypti í því með fjármögnun frá bönkum í gegnum framvirka samninga.
Íslenskir lífeyrissjóðir fengu úthlutað meira en þriðjung þeirra eignarhluta sem ríkissjóður seldi. Samtals keyptu 23 lífeyrissjóðir, sem áttu fyrir útboðið samanlagt um 16 prósenta hlut í bankanum, fyrir 19,5 milljarða króna, eða sem jafngildir liðlega 8,5 prósenta eignarhlut. Lífeyrissjóðurinn Gildi, sem átti fyrir útboðið um 3,4 prósenta hlut, var stærsti einstaki fjárfestirinn og keypti fyrir samanlagt 3,5 milljarða króna og fer núna með rétt rúmlega 5 prósenta eignarhlut í bankanum.
Salan í Íslandsbanka fór fram með tilboðsfyrirkomulagi þar sem söluráðgjafar kanna áhuga hæfra fjárfesta á einum eða tveimur dögum og afla þannig upplýsinga um vilja þeirra til að taka þátt í útboði, með svipuðu fyrirkomulagi og var gert í frumútboði Íslandsbanka. Á grundvelli þessara upplýsinga er svo tekin ákvörðun um hvort að ráðist verði í útboð og hversu stór hlutur verði seldur.
Svar Festu:
Greint var frá á vef Vísis að forstöðumaður eignastýringar Festu lífeyrissjóðs hefði tekið þátt í nýafstöðnu hlutafjárútboði Íslandsbanka í gegn um félag sem er að þriðjungi í hans eigu. Festa lífeyrissjóður tók einnig þátt í útboðinu.
Þó svo að umræddur starfsmaður sjóðsins eigi hlut í félaginu hefur hann ekki komið að rekstri þess, né situr hann þar í stjórn eða tekur ákvarðanir á vettvangi þess. Starfsmaðurinn hafði því ekki aðkomu að ákvörðun um þátttöku félagsins í útboði Íslandsbanka, en þegar honum varð hún ljós lét hann strax vita af henni hjá hagsmunaskráningu sjóðsins, þótt honum bæri ekki skylda til þess. Mat Festu lífeyrissjóðs er að ekki hafi verið um neina hagsmunaárekstra að ræða í þessu tilviki. Þátttaka lífeyrissjóðsins í útboðinu var ákvörðun stjórnar.
Starfsmaður sjóðsins tók hvorki ákvörðun á vettvangi lífeyrissjóðsins né umrædds félags, hann bjó ekki yfir verðmyndandi upplýsingum umfram aðra á markaðnum og viðskiptin höfðu engin áhrif á hagsmuni lífeyrissjóðsins.