Fótbolti

Leikjahæsti leikmaður Kólumbíu á HM látinn eftir bílslys

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Freddy Rincon leikur á Graeme Le Saux í leik með kólumbíska landsliðinu gegn því enska.
Freddy Rincon leikur á Graeme Le Saux í leik með kólumbíska landsliðinu gegn því enska. Shaun Botterill /Allsport

Freddy Rincon, fyrrverandi fyrirliði kólumbíska landsliðsins í fótbolta, er látinn aðeins 55 ára að aldri.

Rincon lenti í bílslysi síðastliðinn mánudag þegar bifreið hans skall á rútu. Hann hlaut mikla höfuðáverka og lést af þeim völdum í morgun.

Rincon var miðjumaður sem lék stærstan hluta ferilsins í heimalandi sínu. Hann reyndi einnig fyrir sér í Evrópu og lék eitt tímabil á láni hjá Napoli og fór þaðan til Real Madrid árið 1995 þar sem hann lék til ársins 1997.

Þá lék hann einnig 84 leiki fyrir kólumbíska landsliðið og skoraði í þeim 17 mörk. Með kólumbíska landsliðinu lék hann á þremur Heimsmeistaramótum, árin 1990, 1994 og 1998. Hann er sá kólumbíski leikmaður sem hefur leikið flesta leiki á HM ásamt Carlos Valerrama, en báðir léku þeir tíu leiki á þessu stærsta fótboltamóti heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×