Gunnar Smári tekur málið upp á síðunni Stéttabaráttan á Facebook. Gunnar Smári hefur verið áberandi í starfi Sósíalistaflokks Íslands og situr í framkvæmdastjórn flokksins.
Hann segir að í auglýsingu Eflingar um starf framkvæmdastjóra séu gerðar kröfur um háskólapróf á sviði rekstrar, stjórnunar, fjármála og/eða mannauðs- eða breytingastjórnunar. Gunnar Smári segir Viðar ekki uppfylla þessar kröfur og ljóst að hann fái ekki starfið ef hann sæki um.
Eins og mikið hefur verið fjallað um var öllu starfsfólki Eflingar sagt upp í vikunni og byrjað er að auglýsa eftir fólki til að fylla stöðurnar.
Gunnar Smári skrifar að Viðar sé með masterspróf í heimspeki og doktorspróf í menningarfræði sem sé óralangt frá rekstri, fjármálum eða stjórnun.
Viðar Þorsteinsson er fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar og samherji Sólveigar Önnu Jónsdóttur formanns félagsins. Viðar hefur tekið þátt í umræðunni um málefni Eflingar síðustu vikur og meðal annars sakað fráfarandi formann, Agnieszku Ziolkowska, um að gera fyrri störf sín sem framkvæmdastjóri tortryggileg.
Umsóknarfrestur um starf framkvæmdastjóra Eflingar rennur út þann 30.apríl og þá kemur í ljós hvort Viðar verður einn af umsækjendum.