Sport

Sýndi mikla í­þrótta­mennsku er hann kom heims­meistaranum til bjargar út í skurði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Julian Alaphilippe keppir fyrir Quick-Step Alpha Vinyl liðið en liggur nú slasaður inn á sjúkrahúsi eftir slæmt fall.
Julian Alaphilippe keppir fyrir Quick-Step Alpha Vinyl liðið en liggur nú slasaður inn á sjúkrahúsi eftir slæmt fall. EPA-EFE/ROBERTO BETTINI

Franski heimsmeistarinn Julian Alaphilippe fór illa út úr fjöldaáresktri í Liege-Bastogne-Liege hjólreiðakeppninni um helgina.

Alaphilippe hefur unnið heimsmeistaratitilinn í götuhjólreiðum tvö ár í röð en hafði ekki heppnina með sér í gær.

Fjöldi hjólreiðakappa lentu saman í árekstri þegar 62 kílómetrar voru eftir af dagleiðinni.

Alaphilippe endastakkst út í skurð og endaði á tré. Tvö rifbein brotnuðu, hann axlarbrotnaði og lungað féll saman.

Romain Bardet, keppinautur hans úr öðru liðu, sýndi mikla íþróttamennsku með því að koma honum til aðstoðar í skurðinum en Alaphilippe átti skiljanlega erfitt með andardrátt eftir höggið.

Bardet hefði vel getað haldið áfram og náð forskoti á marga keppinauta en tók þá ákvörðun að fara niður í skurðinn til að hjálpa Alaphilippe.

Hinn 29 ára gamli Frakki var síðan fluttur á sjúkrahús og líðan hans er sögð stöðug. Hann eyddi nóttinni á sjúkrahúsinu til frekari skoðunar samkvæmt upplýsingum frá liði hans Quick-Step Alpha Vinyl.

Þetta er í þriðja sinn sem Alaphilippe dettur af hjóli sínu á tímabilinu en það gerðist einnig í byrjun mars og síðan aftur fyrir tíu dögum síðan.

Hér fyrir neðan má sjá Romain Bardet segja frá atvikinu svona fyrir þá sem skilja það sem hann er að segja. Hann var í miklu áfalli eins og sjá má.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×