Um­fjöllun og við­tal: KA - Haukar 22-23 | Odda­­­leikur niður­staðan eftir dramatík á Akur­eyri

Ester Ósk Árnadóttir skrifar
Það var hart barist í kvöld.
Það var hart barist í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Fyrsti leikur KA og Hauka var vægast sagt dramatískur og það sama var upp á teningum í kvöld. Háspenna lífshætta á Akureyri þar sem Haukar unnu með minnsta mun og tryggðu sér oddaleik um sæti í undanúrslitum Olís-deildar karla í handboltaen leikurinn endaði 22-23 fyrir Haukum.

Það var Allan Norðberg sem hóf veislu kvöldsins fyrir troðfullu KA húsi sem minnti ansi mikið á gömlu dagana í KA heimilinu þegar þessi lið áttust við. Darri Aronsson jafnaði leika þó strax í næstu sókn og voru Haukamenn skrefi á undan fyrstu mínúturnar og bættu við tveimur mörkum og komu stöðunni í 1-3. 

Þá tóku KA menn við sér og náðu góðum kafla og eftir rúmlega tíu mínútna leik var staðan 5-4 fyrir heimamenn.

Fyrri hálfleikur var fremur kaflaskiptur og áttu gestirnir aftur eftir að ná forystunni. Þeir héldu henni út hálfleikinn og náðu mest þriggja marka forystu, 9-12. Það var hins vegar Óðinn Þór Ríkharðsson sem skoraði seinustu tvö mörk hálfleiksins og staðan því í hálfleik 11-12 fyrir Hauka.

Áhorfendur í KA heimilinu áttu eftir að fá allt fyrir peninginn í seinni hálfleik. Haukar byrjuðu seinni hálfleikinn betur og skoruðu fjögur mörk á móti einu og gestirnir komnir í vænlega stöðu 12-16, var það mesti munurinn á liðunum í leiknum.

Eins og áður sagði var leikurinn kaflaskiptur og sá KA um að skora næstu 6 mörk leiksins og staðan orðinn 18-16 fyrir KA. Í millitíðinni fékk Darri Antonsson sína þriðju brottvísun og þar með rautt spjald þegar hann braut á Ólafi Gústafssyni í hraðaupphlaupi.

KA hélt forystunni og þegar níu mínútur voru eftir var staðan 21-19 fyrir heimamenn. Þá kom annað rauða spjald leiksins þegar Arnar Freyr Ársælsson fékk sína þriðju brottvísun fyrir að fara í andlitið á Ólaf Ægir Ólafsson og þar með rautt spjald, það var mikið áfall fyrir heimamenn en fram að því hafði Arnar Freyr verið með 12 stoppanir í leiknum. 

Stuttu síðar framkvæmdi KA ólöglega skiptingu og voru þar með orðnir fjórir inn á vellinum, rándýrt fyrir heimamenn. Haukar nýttu sér liðsmuninn og komu stöðunni í 21-22. Arnór Ísak náði að jafna leikinn þegar fjórar mínútur voru eftir, 22-22 og spennan í KA heimilinu í hámarki.

Ólafur Ægir Ólafsson kom Haukum þá aftur yfir 22-23 þegar tvær mínútur voru eftir. KA fór í sókn en Stefán Huldar Stefánsson varði vel frá Jón Heiðari Sigurðssyni, Haukar reyndi þá að bæta við marki en Bruno Bernat varði skot frá Guðmundi Braga Ástþórssyni. KA fór þá í sína lokasókn þegar 20 sekúndur voru eftir af leiknum, þeir náðu hins vegar ekki skoti á marki og Haukar náðu að knýja fram oddaleik.

Haukar fá oddaleik.Vísir/Vilhelm

Af hverju unnu Haukar?



Þetta réðst á algjörum smáatriðum í kvöld í mögnuðum handboltaleik, þetta gat endað báðum meginn en Haukar klára lykilfæri undir lok leiks á sama tíma og KA nýtir ekki síðustu tvær sóknir sínar.

Hverjar stóðu upp úr?

Óðinn Þór átti góðan leik.Vísir/Hulda Margrét

Þrátt fyrir það að Haukar hafi lagt mikið upp úr því að loka á Óðinn Þór Ríkharðsson þá skoraði hann 11 mörk úr 15 skotum. Alltaf lang fyrstur fram og mjög öruggur í vítunum. 

Þá var Arnór Ísak Haddson mjög áræðinn þegar á reyndi hjá KA. Bruno Bernat var frábær í marki KA í seinni hálfleik og endaði með tólf varinn skot þar af þrjú dauðafæri af línunni. Í varnarlínu KA bar Arnar Freyr Ársælsson af en hann var með 12 stopp.

Ólafur Ægir Ólafsson var markahæstur hjá Haukum með fimm mörk og Tjörvi gerði vel í skapa fyrir félagana sína. Þá stóð varnarlína Hauka afskaplega vel og átti KA erfitt með að finna opnanir. Stefán Huldar Stefánsson var svo magnaður bak við vörnina en hann varði 14 skot og var með 40% markvörslu.

Hvað gekk illa?

Bæði lið áttu á köflum erfitt með að skapa sóknarlega og voru leikmenn í báðum liðum sem áttu mikið inni sóknarlega.

Haukar áttu þá erfitt með að slíta sig frá KA þegar þeir náðu forystunni. Til dæmis náðu þeir fjögurra marka forystu í seinni hálfleik en fá þá á sig 6-0 kafla sem er ansi dýrt en fór þó ekki með leikinn fyrir þá í kvöld.

Hvað gerist næst?

Veislan heldur bara áfram! Síðustu tveir leikir hafa verið frábærir á milli þessarar liða og fyrir handboltar unnendur þá fáum við einn leik í viðbót. KA þarf að freistast þess að vinna annan leik á Ásvöllum í röð en sá leikur fer fram á miðvikudaginn 27. apríl, klukkan 19:30.

Þar sem Haukar brunuðu í flug strax eftir leik þá fengust ekki viðbrögð frá þeim eftir leik.

Sturtum þetta af okkur og verðum klárir í oddaleik

Jónatan Magnússon, þjálfari KA.Vísir/Hulda Margrét

„Þetta var algjör naglbítur og ekkert ósvipaður síðustu mínútunum í síðasta leik en því miður þá féll þetta ekki okkar meginn í dag,“ sagði Jónatan Magnússon þjálfari KA svekktur eftir tap á móti Haukum í kvöld.

KA fékk tækifæri til að jafna leikinn á lokasekúndunum og knýja fram framlengingu en fóru illa að ráði sínu.

„Við náum ekki skotinu. Við settum upp ákveðna hlaupaleið sem við fórum svo ekki í og úr varð að við náum ekki þessu skoti, því miður. Þetta var ein af mörgum sóknum hjá okkur þar sem við náum ekki að klára enda voru varnirnar frábærar í báðum liðum en auðvitað er svekkjandi að ná ekki þessu skoti. Maður verður að reyna á markmanninn í lokasókninni.“

KA átti í basli sóknarlega í dag og fóru illa með góð færi.

„Við erum með mörg klikk úr góðum færum og Stefán Huldar var að verja vel í markinu. Í seinni hálfleik snérist þetta aðeins við, við fengum geggjaða markvörslu frá Bruno Bernat. Það spilar líka inn í að það er hátt spennustig og varnir voru langar. Mér fannst líka Haukarnir fá að vera rosalega lengi í sókn en það er kannski bara upplifun mín. Þetta var bara alvöru úrslitakeppnisleikur, ekkert ósvipað hinum í gjörsamlega frábærri stemmningu, þvílíkir áhorfendur.“

KA var að vinna leikinn með einu marki þegar Arnar Freyr fær rautt spjald og stuttu síðar framkvæmir KA ólöglega skiptingu og voru KA menn því aðeins með fjóra útileikmenn á vellinum.

„Við komum okkur í hræðilega stöðu með því að taka vitlausa skiptingu, það er óásættanlegt og það tek ég á mig og við í þjálfarateyminu. Það er fullt af hlutum í þessu, svona smáatriðum sem hefðu mátt fara betur en skipta máli í svona leik.“

KA þarf að fara á Ásvelli og þar mun ráðast hvort liðið fer áfram í undanúrslit.

„Núna er 1-1 og það þýðir ekkert að fara að væla og grenja. Við komum út glaðir úr fyrsta leiknum og þeir glaðir núna og þá þurfum við bara fara á Ásvelli og vinna þá. Það er hægt, sérstaklega ef við fáum fólkið með á þann leik. Við viljum mæta með sama kraft og baráttu varnarlega og vonandi verðum við með betri sóknarnýtingu og skorum úr færunum okkar.“

„Ég vona bara að það verði meiri mæting á næsta leik, við vorum á Ásvellum og það var hálft hús. Ég vona eiginlega að Hauka áhorfendur komi og að við fáum okkar fólk og að við fáum alvöru leik. Við erum búnir að vinna þá einu sinni á Ásvöllum og þá er auðvelt að hugsa það að við getum gert það aftur. Það verður verkefnið mitt núna, við verðum að sturta þetta af okkur og verða klárir í oddaleik,“ sagði Jónatan að endingu.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira