Síðast voru mótmæli á Austurvelli fyrir viku, þann 23. apríl, og er óhætt að segja að fundurinn hafi verið fjölmennur. Leikurinn verður endurtekinn í dag þegar bankasölunni verður aftur mótmælt, nú í fjórða sinn.
Upphitun hefst klukkan eitt þar sem Biggi veira, Reykjavíkurdætur, Rebecca Scott Lord og Brynja Hjálmsdóttir verða með atriði.
Fundurinn sjálfur verður síðan settur klukkan tvö og flytja þar Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Karl Héðinn Kristjánsson og Atli Þór Fanndal ræðu. Hulda Vilhjálmsdóttir fer þá með þulu, Hundur í óskilum flytur lög og pólitísku brúðurnar láta sjá sig.
Steinunn Ólína telur nauðsynlegt að landsmenn haldi áfram að láta í sér heyra og finna samstöðu með skoðanabræðrum og systrum.
„Við höfum greinilega valið vanhæft og frekar hættulegt fólk til starfa og við verðum bara sem þjóð að axla þá ábyrgð þvert á flokka. Það fylgir enginn afsláttur að hafa kosið einhverja aðra flokka en nú eru í brúnni, fólk er óánægt og afskaplega svekkt með þessa bankasölu og þetta er áfram á ábyrgð okkar allra,“ segir hún.
Á sama tíma og mótmælin fara fram í Reykjavík fara önnur fram á Ráðhústorginu á Akureyri. Krafa mótmælenda hefur verið að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra víki og ríkisstjórnin bregðist við en aðspurð segist eiga von á að mótmælin haldi áfram þar til eitthvað er gert.
„Við höfum greinilega valið vanhæft og frekar hættulegt fólk til starfa og við verðum bara sem þjóð að axla þá ábyrgð þvert á flokka,“ segir Steinunn.
Hún segir mikilvægt að fólk hafi vonina að leiðarljósi og bendir á að mótmæli hafi skilað sínu í gegnum tíðina.
„Það er bara formúla að kraftaverkum og hún er svona; von plús eljusemi og vinna, þá breytast hlutirnir.“