Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í Úkraínu í allan dag.
Helstu vendingar:
-
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir hernaðarlegan ósigur Rússa augljósan fyrir alla en að Rússa skorti hugrekki til að viðurkenna hann.
-
Bandaríkjamenn hafa heitið stuðningi við aðildarumsókn Finna að NATO, sem staðfest var í morgun, sem og mögulega umsókn Svía en gert er ráð fyrir að þeir feti í fótspor nágranna sinna og tilkynni umsókn sína strax eftir helgi.
-
Varaforstjóri Unicef sagði á fundi með Öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna að tæplega 100 börn hafi látist í Úkraínu í apríl.
-
Sú ákvörðun ráðamanna í Finnlandi að sækja um tafarlausa aðild að Atlantshafsbandalaginu hefur leitt til mikillar reiði í Rússlandi. Talsmaður Vladimírs Pútin, forseta Rússlands, hefur sagt aðild Finna að NATO vera ógn gagnvart Rússlandi. Dmitry Peskov sagði ákvörðunina ekki gera heiminn stöðugri og að Rússar yrðu að bregðast við.
- Vitali Klitschko, borgarstjóri Kænugarðs, hefur varað þá íbúa sem hafa flúið við því að snúa aftur. Eins og sakir standa sé ekki hægt að tryggja öryggi borgara.
- Það að rússneskar hersveitir hafi hörfað frá Kharkív er í raun viðurkenning á því að Rússar hafi ekki haft getu til að að ná lykilborgum í Úkraínu þar sem þeir gerðu ráð fyrir takmarkaðri mótspyrnu íbúa, segir breska varnarmálaráðuneytið.
- Bandaríska utanríkisráðuneytið hefur gefið út skýrslu um áróðursmaskínu Rússa og sakað þá um að nota aðild sína að alþjóðlegum stofnunum til að dreifa falsupplýsingum og reyna að réttlæta aðgerðir sínar í Úkraínu. Þá ítrekar ráðuneytið að Rússar séu þekktir fyrir að saka aðra um einmitt þau brot sem þeir sjálfir hafa framið eða hyggjast fremja.
