Fótbolti

Íslenska karlalandsliðið spilar við slakasta landslið heims í stað Rússa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bræðurnir Sveinn Aron Guðjohnsen og Andri Lucas Guðjohnsen fagna marki sem þeir bjuggu til saman í leik með íslenska landsliðinu.
Bræðurnir Sveinn Aron Guðjohnsen og Andri Lucas Guðjohnsen fagna marki sem þeir bjuggu til saman í leik með íslenska landsliðinu. AP/Brynjar Gunnarsson

Knattspyrnusamband Íslands hefur fundið vináttulandsleik fyrir karlalandsliðið sem kemur í stað leiksins á móti Rússum í Þjóðadeildinni.

KSÍ staðfestir á heimasíðu sinni í dag að A landslið karla muni leika vináttuleik gegn San Marínó þann 9. júní næstkomandi og fer leikurinn fram á þjóðarleikvangi San Marínó í Serravalle.

Leikur San Marínó og Íslands kemur í stað leiks íslenska liðsins við Rússland í B-deild Þjóðadeildar UEFA, sem fara átti fram 10. júní, en eins og fram hefur komið þá hefur UEFA ákveðið að engir leikir Rússlands í keppninni fari fram. Jafnframt hefur UEFA ákveðið að lið Rússa muni falla í C-deild Þjóðadeildarinnar þannig að ekkert hinna liðanna þriggja í riðlinum (Ísland, Ísrael, Albanía) getur fallið.

Íslenska liðið leikur því þrjá leiki í Þjóðadeildinni í júní, auk vináttuleiksins við San Marínó. Fyrsti Þjóðadeildarleikurinn er gegn Ísrael ytra 2. júní, annar leikurinn er gegn Albaníu á Laugardalsvelli 6. júní og sá þriðji gegn Ísrael í Laugardalnum 13. júní. Miðasala á heimaleikina tvo mun opna fljótlega.

Ísland og San Marínó hafa ekki mæst áður í A landsliðum karla. Íslenska liðið hefur mætt Albaníu sjö sinnum og Ísrael þrisvar sinnum.

San Marínó er eins og er í 211. og neðsta sæti styrkleikalista FIFA og er því slakasta landslið heims. Næst á undan San Marínó eru landslið Angvilla og Bresku Jómfrúaeyja í Karíbahafi.

Íslenska landsliðið er sem stendur í 63. sæti heimslistans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×