Innlent

Stjórnvöld blekki almenning með villandi framsetningu

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Finnur Ricart segir markmið stjórnvalda í loftslagsmálum stórlega ýkt af þeim sjálfum.
Finnur Ricart segir markmið stjórnvalda í loftslagsmálum stórlega ýkt af þeim sjálfum. aðsend

Stjórn­völd blekkja al­­menning með villandi fram­­setningu á tölum um mark­mið sín í lofts­lags­­málum að mati Ungra um­­hverfis­­sinna. Allt stefni í að sam­­dráttur í heildar­losun gróður­húsa­­loft­­tegunda frá árinu 2005 til 2030 verði að­eins 4,3 prósent en ekki 55 prósent eins og stefnt er að.

Fá stjórnvöld falleinkunn í loftslagsmálum?

Þessi spurning var titill ráðstefnu á vegum Landverndar og Ungra umhverfissinna og svarið við henni er einfalt að mati samtakanna: Já, stjórnvöld fá algjöra falleinkunn.

Og ekki nóg með það heldur setja þau fram útreikninga um samdrátt gróðurhúsalofttegunda á afar villandi hátt að mati Finns Ricart Andrasonar, loftslagsfulltrúa Ungra umhverfissinna.

„Já, stjórnvöld eru heldur betur að blekkja almenning. Þau básúna í fjölmiðlum og á alþjóðlegum ráðstefnum að þau séu með metnaðarfull markmið og að þau vilji setja loftslagsmálin í forgang og hlusti á vísindin,“ segir Finnur. 

En eftir að hafa kafað í tölur um losun sem Umhverfisstofnun heldur utan um segir Finnur að markmið stjórnvalda um 55 prósenta samdrátt í losuninni milli áranna 2005 til 2030 taki ekki til allrar losunar á landinu. Það markmið miði við úrelta staðla og inni í þeim vanti losun frá landnotkun og stóriðju sem eru auðvitað einhverjir stærstu þættir losunar landsins.

„Þannig að raunverulegur samdráttur sem stjórnvöld stefna að í heildarlosun er einungis 13 prósent,“ segir Finnur.

Stefnt að 13 prósenta samdrætti ef stóriðjan og fleira er tekið inn í myndina, mun minna en helmingssamdrætti eins og alþjóðavísindasamfélagið kallar eftir á heimsvísu.

Og Finnur segir að allt líti út fyrir að stjórnvöld nái ekki einu sinni þessu markmiði um 13 prósenta samdrátt.

„Ef við förum lengra og horfum á þá losun sem við hofum fram á sem Umhverfisstofnun er nýbúin að framreikna þá sjáum við fram á að raunverulegur samdráttur í heildarlosun verður einungis um 4,3 prósent en ekki 50 prósent eins og við þurfum virkilega á að halda til að koma í veg fyrir verstu afleiðingar loftslagsbreytinga,“ segir Finnur Ricart Andrason, loftslagsfulltrúi Ungra umhverfissinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×