Sífellt erfiðara hefur verið fyrir nýbakaða foreldra að nálgast þurrmjólk og ungbarnablöndu í Bandaríkjunum eftir að stærstu þurrmjólkurverksmiðju landsins var tímabundið lokað.
Framleiðandinn Abbott Nutrition lokaði verksmiðju sinni í Minneapolis í febrúar vegna gruns um að framleiðsluvörur hafi leitt til veikinda hjá ungbörnum.
Sendingin er hluti af sérstökum aðgerðum ríkisstjórnar Joes Biden sem hefur gengið erfiðlega að bregðast við vöruskortinum. Miklar takmarkanir hvíla á innflutningi á þurrmjólk til Bandaríkjanna og fara þrír innlendir framleiðendur með 90 prósent markaðshlutdeild. Þar af fer Abbott með tæpan helming, eða 48 prósent.

Einkum vantað vörur fyrir börn með ofnæmi
Karine Jean-Pierre, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, segir að fyrir tilstilli ríkisstjórnarinnar hafi flutningstíminn frá Evrópu verið styttur úr tveimur vikum í um þrjá daga.
Hvíta húsið segir að 132 vörubretti af Nestlé Health Science Alfamino Infant og Alfamino Junior barnaþurrmjólk muni brátt yfirgefa Ramstein-herflugvöllinn í Þýskalandi. Þá séu önnur 114 bretti af Gerber Good Start Extensive HA ungbarnablöndu á leið til landsins á næstu dögum.
Alls séu um 1,5 milljón flöskur af þessum þremur tegundum væntanlegar til landsins í þessari viku en þær henta fyrir börn með ofnæmi fyrir mjólkurpróteini úr kúamjólk. Einkum hefur skort þessa tegund ungbarnablöndu í Bandaríkjunum.
Þurfa að sótthreinsa alla verksmiðjuna
Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) fann Cronobacter sakazakii-bakteríu á nokkrum stöðum í verksmiðju Abbott við eftirlit í janúar, febrúar og mars. Þá sýna gögn að fyrirtækið hafi fundið Cronobacter-bakteríu í framleiðsluvörum sínum árin 2019 og 2020 en örverurnar finnast víða í umhverfinu.
FDA komst síðar að þeirri niðurstöðu að örverusýnin sem fundust í verksmiðjunni pössuðu ekki við sýnin sem tekin voru hjá börnunum sem veiktust og eða í þurrmjólkinni sem neyttu. Abbott sagði í tilkynningu að engin tengsl væru milli veikindatilfellanna og að hvorki Chronobacter né Salmonella hafi greinst í þurrmjólk sem dreift hafi verið til neytenda.
Í bráðabirgðaniðurstöðum FDA segir að Abbott Nutrition hafi skort nægilega góða ferla til að koma í veg fyrir mengun skilaði sér í framleiðsluvörurnar.
Í samkomulagi fyrirtækisins við FDA féllst það á að sótthreinsa öll yfirborð og búnað í verksmiðjunni áður en framleiðsla hæfist á ný. Að sögn Abbott munu líða minnst sex til átta vikur frá því þar til að framleiðslan skilar sér í hillur verslana.