Fram kemur í nýjum samstarfssáttmála Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar að til standi að úthluta lóðum í Úlfarsárdal, Gufunesi, á Hlíðarenda, Kjalarnesi og Ártúnshöfða sem hluti af þessu húsnæðisátaki.
Í sáttmálanum eru útlistuð átján mál sem til stendur að ráðast í sem fyrst en þeirra á meðal er að hækka frístundarstyrk, hefja framkvæmdir á Hlemmtorgi, flýta uppbyggingu Keldnalands og Keldnaholts og bjóða grunnskólabörnum frítt í Strætó.
„Við erum að gera miklar breytingar í þessum samstarfssáttmála. Við erum að draga fram atvinnumálin, nýsköpun og ferðaþjónustu sérstaklega og ég mun leiða það verkefni. Við erum að taka stafræna hlutann og draga hann fram sérstaklega í nýju stafrænu ráði,“ sagði Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, að loknum blaðamannafundi nýs meirihlutans í dag.
„Við erum að setja umhverfismálin aftur inn í skipulagsmálin til að sameina það og við erum líka að sameina mannréttindamál og ofbeldisvarnarráð. Þetta eru svona áherslubreytingar sem er breyting í þessum núverandi sáttmála.“
Þá verði mikil áhersla lögð á uppbyggingu húsnæðis og Sundabrautar. Hún fagnar áherslu Framsóknar á breytingar og segir alla sammála um að þeirra sé víða þörf.
Ólíkir flokkar með ólík stjónarhorn
Aðspurð um hvort einhver tiltekinn málaflokkur hafi tafið viðræður flokkanna segir Þórdís Lóa að enginn einn standi þar upp úr.
„Við þurftum að ræða okkur í gegnum öll þessi mál. Sum þeirra eru stór mál sem eru umfangsmikil, þar á meðal húsnæðisuppbyggingin og samgöngusáttmálinn. Allt sem snýr að því eru risa mál.“
Á sama tíma hafi oddvitar flokkanna verið fljótari í gegnum önnur mál sem algjör samstaða hafi verið um. Þeirra á meðal séu skólamál og velferðarmál þar sem nýr meirihluti sé metnaðarfullar pælingar varðandi nýsköpun og tæknimál.
„Sumt gátum við farið aðeins hraðar í gegnum en urðum náttúrlega að staldra við aðeins flóknari mál. Þannig að það er ekki eins og það hafi verið eitthvað erfitt, heldur voru þau bara oft flókin, þetta eru fjórir flokkar, fjögur sjónarhorn og allir þurfa að mætast einhvers staðar,“ segir Þórdís Lóa. Því hafi verið um að ræða útfærsluatriði frekar en þrætumál.
„Við fórum af stað með lausnamiðað hugarfar og það var svona gildið okkar í gegnum þetta allt og það sem kemur okkur að lokum niður á samstarfssáttmála sem við erum bara mjög stolt af.“