„Ég hef öðlast góða sýn á starf sóttvarnarlæknis undanfarin ár og sé í starfinu tækifæri til að láta gott af mér leiða. Ég geri mér grein fyrir að starfinu fylgir mikil ábyrgð og ég hlakka til að takast á við verkefnin sem eru framundan,“ er haft eftir Guðrúnu á vef landlæknisembættisins.
„Ég er mjög ánægð með ráðningu Guðrúnar í starf sóttvarnalæknis. Hún er með góða menntun og reynslu sem mun nýtast en hefur einnig til að bera nauðsynlega eiginleika fyrir krefjandi starf sóttvarnalæknis, m.a. góða samskiptahæfni, vinnusemi, skipulagshæfni, sjálfstæði og yfirvegun,“ segir Alma D. Möller landlæknir.
Á vef landlæknisembættisins segir um menntun og reynslu Guðrúnar:
„Hún hefur embættispróf í læknisfræði frá Háskóla Íslands og sérfræðimenntun í bæði almennum skurðlækningum og barnaskurðlækningum en hún var lektor og barnaskurðlæknir við Columbia-háskóla á árunum 2007 til 2017. Guðrún, sem jafnframt hefur lokið meistaranámi í líftölfræði, hefur góða þekkingu á smitsjúkdómum og faraldsfræði þeirra og hefur að auki komið að birtingu vísindagreina um smitsjúkdóma og sýklalyfjanotkun. Hún hefur öðlast mikla þekkingu og reynslu á verkefnum sóttvarnasviðs í starfi sínu undanfarin ár. Þá hefur hún einnig reynslu og stundar nám á sviði opinberrar stjórnsýslu.“