Útlitið er aftur á móti ekki gott hjá löndu hennar Söru Sigmundsdóttur sem er bara í þrettánda sæti eftir tvær greinar.
Katrín Tanja er með 172 stig eða átta stigum minna en Kloie Wilson frá Bandaríkjunum sem er í fyrsta sæti og fjórum stigum á eftir Arielle Loewen frá Bandaríkjunum sem er í öðru sætinu.
Katrín deilir þriðja sætinu með Jamie Simmonds frá Nýja-Sjálandi en þær eru með jafnmörg stig.
Katrín Tanja lét vel vita af sér með því að vinna seinni grein dagsins eftir að hafa endað í áttunda sæti eftir fyrstu greinina. Hún hoppaði því upp um fimm sæti.
Sara er aftur á móti bara með 107 stig en hún er þrettán stigum frá tólfa sætinu og heilum 69 stigum frá öðru sætinu en það eru bara tvö efstu sætin sem gefa sæti á heimsleikunum.
Sara náði bara sextánda sætinu í fyrstu greininni en varð tíunda í grein tvö.
Sara hefur misst af síðustu tveimur heimsleikum. Hún komst ekki áfram í lokaúrslitin 2020 en vegna kórónuveirunnar komust þá bara fimm í úrslitin. Í fyrra missti hún síðan af öllum tímabilinu eftir krossbandsslit.
Katrín Tanja hefur ekki aðeins komist á sjö heimsleika í röð heldur hefur hún verið á topp tíu á þeim öllum og meðal fimm efstu á sex af þessum sjö leikum.
Tvær greinar fara fram í dag sem er seinni dagur keppninnar. Það að það séu bara fjórar greinar á Last-Chance Qualifier mótinu gerir verkefni dagsins enn erfiðara fyrir Söru.