Ranil Wickremesinghe, forsætisráðherra Srí Lanka, mun láta af völdum fljótlega en hann ætti að vera orðinn vanur því. Hann tók við embætti forsætisráðherra í maí síðastlinum í sjötta skipti en honum hefur aldrei tekist að sitja heilt kjörtímabil.
Mótmælendur stungu sér til sunds
Mótmæli sem geysað hafa í Srí Lanka um nokkurra mánaða skeið náðu hápunkti sínum í dag þegar mótmælendur ruddust inn á heimili og skrifstofu forseta landsins, Gotabaya Rajapaksa.
Þúsundir manna tóku þátt í mótmælunum og sjá má mannhafið í myndskeiði The Telegraph hér að neðan. Þar má einnig sjá mótmælendur skemmta sér konunglega í sundlaug forsetans.
Í frétt AP um mótmælin segir að þau séu uppsprottinn vegna efnahagsástandsins í landinu en það hafi ekki verið verra í sögu landsins. Mótmælendur kenni forsetanum og forsætisráðherranum um ástandið og vilji þá á brott.
AP hefur eftir talsmanni srílankska þingsins, Dinouk Colambage, að forsætisráðherrann hefði tilkynnt leiðtogum þingflokka að hann muni segja af sér þegar allir flokkar hafa samið um myndun nýrrar ríkisstjórnar.
Í maí á þessu ári sagði eldri bróðir forsetans og þáverandi forsætisráðherra, Mahinda Rajapaksa, af sér vegna mótmæla.