Í samningnum sammælast ríki og sveitarfélög um stefnu og markvissar aðgerðir til að tryggja uppbyggingu íbúða í samræmi við þörf ólíkra hópa. Í tilkynningu frá innviðaráðuneytinu segir að þetta sé í fyrsta sinn sem ríki og sveitarfélög gera með sér samkomulag um sameiginlega sýn á aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, skrifaði undir samninginn ásamt Aldísi Hafsteinsdóttur, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Hermanni Jónassyni, forstjóra Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar
30 prósent verði hagkvæmar íbúðir
Sigurður segir eitt stærsta áherslumálið í sáttmála ríkisstjórnarinnar vera að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði og koma í veg fyrir þær miklu sveiflur sem hafa einkennt markaðinn síðustu ár.
„Afleiðingar þessara sveiflna eru meðal annars þær að kynslóðir fyrstu kaupenda eiga erfitt með að komast inn á húsnæðismarkað. Staðan kallar á samstillt átak og ég fagna því að ríki og sveitarfélög hafi nú náð saman um sameiginlega sýn á mikilvægustu verkefnin framundan“
Hann segir sérstaklega ánægjulegt að 30 prósent af heildaruppingu verði hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði og 5 prósent verði félagsleg húsnæðisúrræði til að bæta stöðu viðkvæmra hópa á markaðnum.
Næsta skref samningar við ríkið
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga tekur í sama streng. Næstu skref segir hún vera að sveitarfélögin geri sjálf samninga við ríkið á grundvelli rammasamningsins þar sem vænta má fjárstuðning frá ríkinu.

„Sambandið mun styðja við þá samningsgerð og fylgja eftir í góðri samvinnu við HMS þeirri aðgerðaáætlun sem er hluti þessa rammasamnings,“ er haft eftir Aldísi.
Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segir vandaða áætlanagerð og eftirfylgni með rauntímaupplýsingum forsendu þess að ná stöðugleika á húsnæðismarkaði.
„Við hjá HMS hlökkum til að eiga í framhaldinu gott samstarf við sveitarfélögin um þetta mikilvæga mál sem snertir hvert heimili á landinu og allir geta tengt við með einum eða öðrum hætti.“