Víkingur mætir velska liðinu The New Saints í annarri umferð á meðan Breiðablik etur kappi við Buducnost Podgorica frá Svartfjallalandi. Bæði lið hefja leik á heimavelli og fara þeir báðir fram næstkomandi fimmtudag. Víkingur fer svo til Wales á þriðjudaginn eftir viku, en Blikar spila síðari leikinn í Svartfjallalandi tveimur dögum síðar.
Eftir dráttinn í dag geta liðin tvö séð hvaða liðum er möguleiki á að þau mæti í þriðju umferð forkeppninnar. Bæði lið hefja þriðju umferðina á heimavelli komist þau þangað.
Víkingur tekur þá annað hvort á móti pólsku meisturunum í Lech Poznan eða Dinamo Batumi, en Dinamo Batumi varð deildarmeistari í Georgíu á seinasta tímabili.
Komist Breiðablik áfram er ljóst að liðið á langt ferðalag fyrir höndum. Blikar mæta þá annað hvort tyrkneska liðinu Istanbul Basaksehir, eða ísraelska liðinu Maccabi Netanya. Istanbul Basaksehir hafnaði í fjórða sæti í tyrknesku deildinni og Maccabi Netanya í fjórða sæti í ísraelsku deildinni.