Ríkharð Óskar Guðnason fékk Kristján Óla til að velja verstu kaupin í Bestu deildinni og valið var opinberað í síðasta þætti.
Kristjáni Óla finnst ekki mikið til danska vinstri bakvarðarins hjá Val, Jespers Juelsgård, koma og sagði að það væru verstu kaup tímabilsins.
„Hann hefur ekkert getað. Hann er með fínan fót en er eins og snigill upp og niður kantinn. Hann er fínn í föstum leikatriðum. Annað ekki,“ sagði Kristján Óli. Juelsgård kom til Vals fyrir tímabilið frá AGF. Hann á tvo leiki fyrir danska landsliðið á ferilskránni.
Mikael var ekki sammála vali Kristjáns Óla og taldi svarthvítu liðin, FH og KR, hafa misst marks á félagaskiptamarkaðnum.
„Fyrir mér eru verstu kaupin Kristinn Freyr Sigurðsson í FH. Það átti að byggja nýtt lið upp þar og hann átti að vera aðalmaðurinn en þeir eru með tvo sigra. Hallur Hansson og Kristinn Freyr áttu að vera tveir bestu menn deildarinnar. Eru þeir komnir með þrjú mörk samanlagt?“ spurði Mikael en svarið við því er já. Kristinn hefur skorað tvö mörk í Bestu deildinni en Hallur eitt.
Þungavigtin er hlaðvarpsþáttur sem fjallar fyrst og fremst um knattspyrnu og öllu henni tengdri bæði hér á landi sem og erlendis. Hægt er að nálgast allan þáttinn og kaupa áskrift af Þungavigtinni á tal.is/vigtin.